Golf

Með fimm högga forystu þegar Masters mótið er hálfnað

Nær einhver að stöðva Jordan Spieth?
Nær einhver að stöðva Jordan Spieth? Getty
Þegar að Masters mótið er hálfnað leiðir bandaríska ungstirnið Jordan Spieth en hann er á 14 höggum undir pari eftir hringina tvo. Frammistaða Spieth hefur verið með ólíkindum en hann hefur aðeins fengið einn skolla það sem af er móti.

Heilum fimm höggum á eftir kemur landi hans Charley Hoffman en hann er á níu höggum undir pari eftir 36 holur.

Paul Casey, Justin Rose og Dustin Johnson deila þriðja sætinu á sjö höggum undir pari en það verður spennandi að sjá hvort að einhverjum þeirra takist að gera atlögu að Spieth á þriðja hring á morgun.

Tiger Woods hefur leikið ágætt golf í endurkomu sinni og er jafn í 19. sæti á samtals tveimur höggum undir pari eftir hring upp á 69 högg á öðrum hring í kvöld.

Nokkur stór nöfn duttu úr leik og náðu ekki niðurskurðinum sem miðaðist við tvö högg yfir pari en þar má helst nefna Jim Furyk, Luke Donald, Martin Kaymer og J.B. Holmes sem sigraði á síðasta móti á PGA-mótaröðinni.

Þriðji hringur frá Augusta National verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni frá klukkan 19:00 á morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×