Bandaríkjamaðurinn brosmildi, Boo Weekley og Zimbabwemaðurinn Brendon de Jonge leiða eftir fyrsta hring á Zurich Classic sem fram fer í New Orleans.
Þeir félagar léku TPC Louisiana völlinn á 64 höggum eða átta undir pari en skor þátttakenda var almennt mjög gott á fyrsta hring þar sem aðstæður voru með allra besta móti.
David Heran og Sean Ohare deila þriðja sætinu á sjö höggum undir pari en margir kylfingar koma þar á eftir á sex undir.
Nokkur stór nöfn léku vel á fyrsta hring en þar ber helst að nefna Jason Day og Dustin Johnson sem komu inn á 67 höggum eða fimm undir pari en Keegan Bradley og Justin Rose, sem var í toppbaráttunni á Masters fyrir tveimur vikum, léku fyrsta hring á þremur höggum undir.
Zurich Classic verður í beinni útsendingu á Golfstöðinni alla helgina en útsending frá öðrum hring hefst í kvöld klukkan 19:00.

