Fótbolti

Fred í föstudagsfíling í fyrsta sigri Lilleström

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ingvar Jónsson varði víti í sínum fyrsta leik í norsku úrvalsdeildinni.
Ingvar Jónsson varði víti í sínum fyrsta leik í norsku úrvalsdeildinni. vísir/daníel
Rúnar Kristinsson og lærisveinar hans unnu sinn fyrsta leik í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld þegar liðið valtaði yfir nýliða Mjöndalen á útivelli, 4-1.

Árni Vilhjálmsson og Finnur Orri Margeirsson voru báðir í byrjunarliði Lilleström sem lenti undir á 10. mínútu, 1-0.

Lilleström jafnaði metin á 39. mínútu, en markið skoraði framherjinn með skemmtilega nafnið; Fred Friday. Árni Vilhjálmsson lagði upp markið fyrir félaga sinn, 1-1.

Fred var svo sannarlega í föstudagsfíling, en hann bætti við öðru marki Lilleström á 49. mínútu og kom liðinu í 3-1 á 61. mínútu. Þrenna hjá Friday.

Moryke Fofana innsiglaði svo stórsigur Lilleström, 4-1, með marki á 68. mínútu, en Rúnar og hans menn komust upp í 10. sætið með sigrinum. Lilleström er með fimm stig.

Ingvar Jónsson, besti markvörður Pepsi-deildarinnar á síðustu leiktíð, var í byrjunarliði Start í fyrsta skipti í kvöld þegar liðið tapaði fyrir Rosenborg, 3-2.

Ingvar varði víti frá fyrrverandi FH-ingnum Alexander Söderlund á 74. mínútu í stöðunni 1-1, en Söderlund skoraði úr frákastinu, 2-1.

Liam Henderson bætti við marki fyrir Rosenborg, 3-1, en Kristoffer Ajer minnkaði muninn fyrir gestina í Start, 3-2.

Guðmundur Kristjánsson og Matthías Vilhjálmsson voru báðir í byrjunarliði Start, en Hólmar Örn Eyjólfsson stóð vaktina í vörn Rosenborg sem er á toppnum með þrettán stig. Start er í ellefsta sæti með fimm stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×