Fótbolti

Jón Daði fiskaði vítaspyrnu sem tryggði Viking sigur

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jón Daði Böðvarsson hafði mikil áhrif á leikinn.
Jón Daði Böðvarsson hafði mikil áhrif á leikinn. mynd/viking-fk.no
Viking Stavanger vann góðan útisigur á Sandefjord, 2-1, í fimmtu umferð norsku úrvalsdeildarinnar í fótbolta á útivelli í kvöld.

Enginn Íslendingur var í byrjunarliði Viking sem þykir tíðindum sæta, en fjórir slíkir eru á mála hjá liðinu.

Björn Daníel Sverrisson er meiddur langt fram á tímabilið, Indriði Sigurðsson er frá vegna meiðsla og þeir Jón Daði Böðvarsson og Steinþór Freyr Þorsteinsson byrjuðu á bekknum.

Íslendingalausir Víkingar komust yfir með marki Suleiman Abdullahi á 46. mínútu en heimamenn í Sandefjord jöfnuðu metin, 1-1, á 79. mínútu.

Jón Daði Böðvarson kom inn á sem varamaður fyrir markaskorarann Abdullahi og fiskaði vítaspyrnu á 82. mínútu sem Veton Berisha skoraði sigurmarkið úr, 2-1.

Steinþór Freyr Þorsteinsson kom einnig inn á sem varamaður og reyndi eitt flikk-flakk innkast.

Enginn Íslendingur var heldur í byrjunarliðinu í Íslendingaslag Vålrenga og Álasunds. Elías Már Ómarsson var á bekknum hjá heimamönnum og Daníel Leó Grétarsson hjá gestunum, en Aron Elís Þrándarson hefur ekki enn spilað leik vegna meiðsla.

Vålerenga komst yfir með marki Niklas Gunnarsson á 43. mínútu en Leke James og Sakari Mattila skoruðu fyrir gestina á 76. og 81. mínútu og tryggðu Álasundi fyrsta sigur liðsins í deildinni.

Viking er í níunda sæti sex stig eftir fimm umferðir, Vålerenga í þriðja sæti með tíu stig og Álasund í 14. sæti með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×