Körfubolti

Strákarnir okkar mæta Dirk Nowitzki á EM í Berlín

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Dirk Nowitzki er einn stigahæsti leikmaður NBA frá upphafi.
Dirk Nowitzki er einn stigahæsti leikmaður NBA frá upphafi. vísir/epa
Dirk Nowitzki, leikmaður Dallas Mavericks í NBA-deildinni í körfubolta, staðfesti á blaðamannafundi í Frankfurt í morgun að hann verður með þýska landsliðinu á EM í sumar.

Þetta styrkir þýska liðið, sem verður á heimavelli, augljóslega mikið, en Nowitzki hefur einu sinni verið kosinn besti leikmaður NBA-deildarinnar og hefur unnið hana með Mavericks.

Það er því ljóst að strákarnir okkar mæta einni skærustu körfuboltastjörnu heims, en Þýskaland spilar í riðli með Íslandi, Ítalíu, Serbíu, Tyrklandi og Spáni á EM. Riðilinn verður spilaður í Berlín og eru vitaskuld fleiri NBA-stjörnur í hinum landsliðunum eins og Gasol-bræðurnir hjá Spáni.

Nowitzki hefur legið undir feldi í nokkrar vikur, en hann sagðist þurfa að ræða ákvörðunina við þjálfarann sinn, foreldra, eiginkonu og Marc Cuban, eiganda Mavericks.

„Ég kýs að vera í Berlín. Ég notaði maí til að koma mér aðeins frá körfuboltanum sem hjálpaði mér að taka þessa ákvörðun. Þetta verður frábær endir á mínum landsliðsferli,“ sagði Nowitzki við mikinn fögnuð áhorfenda í salnum.

Nowitzki hefur ekki spilað í síðustu 141 landsleik fyrir Þýskaland, en hann var síðast með á EM 2011 í Ltiháen. Hann tók þátt á Ólympíuleikunum 2008 og vann til bronsverðlauna með Þýskalandi á HM 2002 og EM 2005.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×