Körfubolti

Jón Arnór og félagar tryggðu sér oddaleik á móti Barcelona | Næststigahæstur í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson.
Jón Arnór Stefánsson. Vísir/Getty
Jón Arnór Stefánsson og félagar í Unicaja Malaga fá hreinan úrslitaleik á móti Barcelona um sæti í lokaúrslitunum á Spáni eftir ellefu stiga heimasigur á Barca, 77-66, í kvöld í fjórða leik liðanna í undanúrslitunum spænsku úrslitakeppninnar í körfubolta.

Barcelona vann fyrstu tvo leikina í einvígi liðanna en þeir fóru báðir fram í Barcelona. Síðustu tveir leikir hafa hinsvegar farið fram á heimavelli Unicaja Malaga og Jón Arnór og félagar hafa unnið þá báða. Real Madrid er komið í lokaúrslitin eftir 3-1 sigur í hinu undanúrslitaeinvíginu.

Jón Arnór Stefánsson skoraði níu stig á rúmum ellefu mínútum í kvöld en hann hitti úr 3 af 5 skotum sínum í leiknum. Þetta var sameinað átak hjá Unicaja Malaga í leiknum því aðeins einn leikmaður skoraði meira en íslenski landsliðsmaðurinn í kvöld.

Stigahæsti leikmaður Unicaja Malaga var Jayson Granger með 11 stig. Jón Arnór skorðai níu stig eins og þeir Ryan Toolson og fyrirliðinn Fran Vázquez.

Unicaja Malaga lagði grunninn að sigrinum með frábærum fyrri hálfleik sem liðið vann 41-24. Unicaja vann fyrsta leikhlutann 20-14 og annan leikhlutann 21-10.

Unicaja Malaga hélt velli í seinni hálfleiknum og fylgdi þar með eftir frábærum sigri liðsins í leik þrjú. Það mun þó reyna á liðið á útivelli í oddaleiknum þar sem liðið tapaði fyrstu tveimur leikjunum með að meðaltali 26 stiga mun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×