Fótbolti

Jón Daði sagður ætla fara frá Viking

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson. Mynd/Heimasíða Viking
Jón Daði Böðvarsson vill fara frá norska liðinu Viking í sumar og fara til félags þar sem hann fær meira að spila.

Þetta er fullyrt í Aftenbladet í Noregi í dag en sjálfur segir hann í samtali við blaðið að ekkert hafi verið ákveðið enn.

„Við sjáum hvað gerist. Ef Veton Berisha fer í sumar þá fæ ég væntanlega meira að spila. Það væri jákvætt fyrir mig,“ var haft eftir Jóni Daða sem bætti því við að það væri mikilvægt fyrir hann að fá að spila eins mikið og kostur er.

Jón Daði hefur skorað þrjú mörk fyrir Viking á tímabilinu en aðeins verið í byrjunarliðinu í fimm leikjum. Hann var byrjunarliðsmaður í landsliðinu í upphafi núverandi undankeppni en hefur verið varamaður í síðustu leikjum.

„Ég mun bíða og sjá hvað gerist en það er ekkert leyndarmál að ég vil komast út og spila í sterkari deild. Ég vil gjarnan fá að spila meira en Viking gengur vel sem stendur.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×