Fótbolti

Helgi Valur leggur skóna á hilluna

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Helgi Valur í leik með AIK.
Helgi Valur í leik með AIK. vísir/getty
Fótboltamaðurinn Helgi Valur Daníelsson hefur lagt skóna á hilluna en þetta kemur fram á heimasíðu AGF í dag.

Helgi, sem er 33 ára, lék með AGF á síðasta tímabili og hjálpaði liðinu að vinna sér sæti í dönsku úrvalsdeildinni.

„Við höfum verið ánægðir með framlag Helga en við skiljum vel að hann vilji fara aftur heim til fjölskyldu sinnar,“ sagði íþróttastjóri AGF, Jens Andersson. Þjálfari liðsins, Morten Wieghorst, hrósaði Helga einnig fyrir hans framlag til AGF.

„Helgi var mikilvægur hluti af liðinu. Hann glímdi við meiðsli en lagði sig alltaf fram og reynsla hans nýttist okkur vel,“ sagði Wieghorst um Helga sem lék 23 leiki með AGF og skoraði eitt mark.

Helgi hóf feril sinn með Fylki í Árbænum og lék alls 68 leiki með liðinu í efstu deild.

Hann gekk í raðir Peterborough á Englandi 1999 en kom aftur heim til Fylkis fjórum árum síðar. Helgi fór svo aftur út í atvinnumennsku 2006 þegar hann gekk til liðs við sænska liðið Östers.

Hann lék einnig með Elfsborg, Hansa Rostock, AIK og Belenenses í Portúgal á ferlinum.

Helgi lék 33 A-landsleiki fyrir Íslands hönd, þann síðasta gegn Belgíu í nóvember á síðasta ári.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×