Kári Árnason spilaði allan leikinn í vörn Malmö sem vann 3-0 sigur á GIF Sundsvall í sænsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag.
Þetta var annar leikur Kára fyrir félagið, en hann gekk í raðir Malmö í sumar frá Rotherham. Nikola Djurdjic kom Malmö yfir á annari mínútu og Vladimir Rodic bætti við marki fyrir hlé.
Það var svo Markus Rosenberg, fyrrum leikmaður WBA og Werder Bremen, sem skoraði þriðja og síðasta mark Malmö.
Malmö er í fimmta sætinu með 30 stig, en Sundsavll er í þrettánda sætinu með fjórtán stig. Jón Guðni Fjóluson spilaði allan leikinn fyrir gestina, en Rúnar Már Sigurjónsson var ekki í leikmannahópnum.
Guðlaugur Victor Pálsson spilaði allan leikinn þegar Helsingborg vann 2-1 sigur á Atvidaberg í sömu deild. Arnór Smárason var ónotaður varamaður.
Robin Simovic gerði bæði mörk Helsingborgar, en Tor Övind Hovda skoraði fyrir Atvidaberg. Helsingborg er í sjöunda sætinu, en Atvidaberg á botninum.
