Landsliðskonan Glódís Perla Viggósdóttir lék allan leikinn fyrir Eskilstuna United sem gerði 1-1 jafntefli við Vittsjö í sænsku úrvalsdeildinni í kvöld.
Eskilstuna er enn á toppi deildarinnar, tveimur stigum á undan Rosengård sem á leik til góða.
Gaelle Enganamouit, sem sló í gegn með kamerúnska landsliðinu á HM í Kanada í sumar, kom Eskilstuna yfir á 22. mínútu en Jane Ross tryggði Vittsjö, sem er í 7. sæti deildarinnar, stig þegar hún jafnaði metin átta mínútum fyrir leikslok.
Glódís hefur leikið alla 11 leiki Eskilstuna í deildinni en hún er á sínu fyrsta tímabili með liðinu.
