Fótbolti

Aron með mark í sigri Aalesund | Langþráður sigur Lilleström

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron Elís er kominn með þrjú mörk í norsku deildinni.
Aron Elís er kominn með þrjú mörk í norsku deildinni. vísir/ernir
Aron Elís Þrándarson skoraði fyrra mark Aalesund í 2-0 sigri á Start í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í dag.

Þetta var þriðja mark Arons fyrir Aalesund í sjö leikjum á þessu tímabili en Víkingurinn er kominn aftur á fulla ferð eftir meiðsli. Með sigrinum komst Aalesund upp í 10. sæti deildarinnar.

Guðmundur Kristjánsson lék allan leikinn fyrir Start sem er búið að tapa þremur leikjum í röð.

Lærisveinar Rúnars Kristinssonar í Lilleström unnu 3-2 sigur á botnliði Sandefjord á heimavelli.

Þetta var fyrsti sigur Lilleström síðan liðið vann Viking, 2-1, 7. júní síðastliðinn. Lilleström er í 8. sæti deildarinnar með 24 stig.

Lilleström var komið 3-0 yfir eftir 33. mínútna leik en leikmenn Sandefjord gáfust ekki upp og náðu að minnka muninn í 3-2. Nær komust þeir hins vegar ekki.

Finnur Orri Margeirsson kom inn á sem varamaður á 74. mínútu í liði Lilleström en Árni Vilhjálmsson er frá vegna meiðsla.

Þá vann Strömgodset stórsigur, 0-6, á Tromsö á útivelli og Odd vann Mjöndlen, 3-6, í miklum markaleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×