„Virk samvera fjölskyldna er þegar börn og foreldrar verja tíma saman og allir taka þátt.“ Þetta segir Edda Davíðsdóttir, tómstundarfulltrúi Mosfellsbæjar, en hún ásamt fleirum stendur að Saman hópnum. Saman Hópurinn er grasrótarhreyfing fólks sem stofnuð var 1999 og hefur verið virk allar götur síðan. Markmið starfsins er að styrkja og styðja foreldra í uppeldishlutverkinu. Hópurinn hefur frá stofnun sent frá sér skilaboð á tímamótum eins og um jól og áramót, fyrir verslunarmannahelgi og viðburði á borð við Menningarnótt.
„Við viljum hvetja fjölskyldur til að njóta alls þess sem Menningarnótt hefur upp á að bjóða saman og fara svo saman heim þegar kvölda tekur,“ segir Guðrún Halla Jónsdóttir, félagsráðgjafi í Miðgarði og meðlimur Saman hópsins. „Við teljum ekki æskilegt að börn eða unglingar taki þátt í næturlífinu sem fylgir Menningarnótt. Viðburðurinn hefur upp á svo margt fallegt að bjóða sem er tilvalið fyrir alla fjölskylduna að njóta og fara svo til síns heima saman.“

Fjölmargir aðilar og samtök standa við bakið á Saman Hópnum. Má þar nefna Akureyrarbæ, Borgarbyggð, Grindavík, GuðjónÓ - Vistvæna prentsmiðjan, Kópavogsbær, Landsbankann, Lýðheilsusjóð, Reykjavíkurborg, Súðavíkurhrepp, Seyðisfjarðarkaupstað og Vestmannaeyjabæ. Hægt er að kynna sér allt um hópinn á www.samanhopurinn.is
„Stuðningurinn hefur verið ómetanlegur í gegnum árin og við sjáum jákvæða þróun í þessum málum sem okkur er svo annt um,“ segir Inga „Ég vona að fjölskyldur verji Menningarnótt saman í að gera eitthvað skemmtilegt. Saman Hópurinn hefur mjög heilbrigð og jákvæð skilaboð fram að færa sem ég vona að sem flestir tileinki sér.“
Hér má sjá eina af auglýsingum hópsins.