Fótbolti

Meiðslapésinn Thiago framlengir við þýsku meistarana

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Thiago hefur verið mikið frá vegna meiðsla undanfarin ár.
Thiago hefur verið mikið frá vegna meiðsla undanfarin ár. vísir/getty
Spænski miðjumaðurinn Thiago Alcantara hefur skrifað undir nýjan fjögurra ára samning við Þýskalandsmeistara Bayern München.

Thiago kom til Bayern frá Barcelona sumarið 2013 en hefur aðeins verið 13 sinnum í byrjunarliði þýska liðsins á þessum tveimur árum vegna þrátlátra meiðsla.

„Við erum ánægð með að Thiago ákveðið að gera langtímasamning við Bayern. Hann er ungur og mikilvægur í framtíðaráætlunum félagsins,“ sagði Karl-Heinz Rummenigge, stjórnarformaður Bayern, eftir að Thiago skrifaði undir nýja samninginn.

Hinn 24 ára gamli Thiago hefur spilað undir stjórn Pep Guardiola alla tíð, fyrst hjá Barcelona og svo hjá Bayern, fyrir utan tímabilið 2012-13 þegar Tito Vilanova var knattspyrnustjóri Barcelona.

Thiago, sem hefur leikið fimm landsleiki fyrir Spán, hefur komið inn á sem varamaður í fyrstu tveimur leikjum Bayern í þýsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×