Fótbolti

Kristianstad tók stig af toppliði Rosengård

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Margrét Lára Viðarsdóttir og Elísa Viðarsdóttir hjálpuðu Kristianstad að ná í óvænt stig í kvöld.
Margrét Lára Viðarsdóttir og Elísa Viðarsdóttir hjálpuðu Kristianstad að ná í óvænt stig í kvöld. Vísir/ÓskarÓ
Íslendingaliðin Kristianstad og Rosengård gerðu í kvöld markalaust jafntefli í sænsku kvennadeildinni í fótbolta.

Þetta var óvænt stig fyrir stelpurnar hennar Elísabetar Gunnarsdóttur sem eru sjö sætum neðar í töflunni en Rosengård er á toppnum.

Systurnar Margrét Lára Viðarsdóttir og Elísa Viðarsdóttir spiluðu allan leikinn fyrir Kristianstad og Sif Atladóttir kom inná sem varamaður á 69. mínútu.

Margrét Lára fékk gula spjaldið strax á 7. mínútu leiksins og var það eitt af þremur spjöldum liðsins en hin brasilíska Marta fékk eina spjald Rosengård í leiknum.

Sara Björk Gunnarsdóttir lék allan leikinn með Rosengård en liðið frá Malmö hefur verið að gefa aðeins eftir að undanförnu.

Rosengård hefur aðeins unnið einn af síðustu fjórum leikjum sínum og fyrir vikið getur Eskilstuna náð Söru Björk og félögum að stigum vinni Glódís Perla Viggósdóttir og félagar hennar í Eskilstuna leikinn sem þær eiga inni.

Kristianstad var búið að tapa þremur leikjum í röð en þessi úrslit eru mikil framför frá því í fyrri leik liðanna á tímabilinu sem Rosengård vann 7-0.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×