David de Gea, markvörður Manchester United, er ekki á leið frá félaginu. Þetta segir Louis van Gaal, stjóri enska félagsins, sem hrósar Ed Woodward, stjórnarformanni Manchester United, sem hefur fengið sinn skerf af gagnrýni undanfarnar vikur.
Samkvæmt fjölmiðlum á Spáni ætla spænsku risarnir í Real Madrid að gera eina tilraun enn til þess að klófesta spænska markvörðinn sem hefur verið frystur hjá United í fyrstu leikjum tímabilsins. Van Gaal fullyrðir að De Gea fari ekki fet.
Spænski landsliðsmaðurinn Pedro gekk í raðir Chelsea í síðustu viku eftir að hafa verið á leiðinni til United. Fékk Ed Woodward, stjórnarformaður rauðklædda liðsins í Manchester, mikla gagnrýni fyrir vikið. Van Gaal er ánægður með Ed og hrósar honum duglega.
„Ég hef það á tilfinningunni að þið viljið búa til ríg á milli mín og Ed Woodward. Það mun aldrei, gerast, aldrei. Hann upplýsir mig um gang mála hvern einasta dag og ég treysti honum,” segir Van Gaal.
Hann telur gagnrýnina á Woodward hafa lítil áhif enda hafi hann endurtekið sannað það undanfarin ár að hann sé starfi sínu vaxinn.
