Þrír Bandaríkjamenn, Willam McGirt, Tom Hoge og Eric Compton leiða eftir fyrsta hring á Wyndham meistaramótinu sem fram fer á Greensboro vellinum sem þeir léku á 62 höggum eða á átta höggum undir pari.
Það var þó Tiger Woods sem allir voru að tala um en hann lék sinn besta hring í tvö ár og kom inn á 64 höggum eða sex undir pari.
Tiger fékk sjö fugla á hringnum og aðeins einn skolla en hann þarf helst að sigra í mótinu um helgina til þess að fá komast inn í úrslitakeppni PGA-mótaraðarinnar sem hefst í næstu viku.
Það er skemmtileg tilbreyting að sjá þennan fyrrum besta kylfing heims aftur í toppbaráttunni en hann púttaði mjög vel í dag og er jafn í sjöunda sæti ásamt Davis Love og Martin Kaymer.
Bein útsending frá öðrum hring hefst á Golfstöðinni klukkan 19:00.
