Forseti Real Madrid kom Gerard Pique, varnarmanni Barcelona, til varnar í gær eftir að stuðningsmenn bauluðu á Pique í leik spænska landsliðsins gegn Slóvakíu á dögunum.
Pique sem er uppalinn í Barcelona hefur vakið mikla athygli á Spáni undanfarin ár með skoðunum sínum um sjálfstæði Katalóníu.
Sagði Sergio Ramos, liðsfélagi hans hjá spænska landsliðinu, í viðtölum eftir leik að hann þyrfti betur að hugsa um hvað hann væri að segja í samtali við fjölmiðla.
Hafa leikmenn á borð við Cesc Fabregas, Santi Cazorla og Jordi Alba allir stutt við bakið á Pique en það þykir athyglisvert að forseti erkifjenda Barcelona í Real Madrid komi leikmanni Barcelona til varnar.
„Ég er vis um að hann segi stundum vitlausa hluti eins og allir lenda í en það gefur aðdáendum ekki rétt til þess að baula og flauta á eigin leikmenn, hvað þá fyrir leikmenn sem spila fyrir landsliðið. Hann er eins og hann er en hann á ekki skilið þessa meðferð.“
