„Ég kíkti á tölvuskeytið um sigurinn nokkrum sinnum og var viss um að í því væru bara þakkir fyrir þátttökuna. Tíu mínútum seinna áttaði ég mig á að keppnin var nafnlaus og ekki átti að hafa samband við aðra en vinningshafa svo ég fór að lesa meilið almennilega. Var í matarboði og stóð upp og öskraði: Ég vann! Þetta var mjög gott augnablik.“
Sigurfregnin barst Ragnheiði í apríl. Skyldi ekki hafa verið erfitt að halda upphefðinni leyndri? „Jú, mig hefur langað allan tímann að öskra framan í heiminn: Þetta tókst!“ svarar hún hlæjandi.

„Ég var alltaf að skrifa og myndskreyta sem barn en á unglingsárunum fór krafturinn í að skrifa heimildarritgerðir. Mamma var samt alltaf að pota í mig og segja: „Jæja, Ragnheiður. Ætlar þú ekki að fara að gera eitthvað í þessu með skáldskapinn?“ og ég bara ranghvolfdi augunum og sagði: Oh, mamma. Hún er svo sannfærð um að ég geti allt og verandi með slíkan bakhjarl fer maður á endanum að trúa því að maður sé góður í einhverju. Amma veitti mér líka uppörvun og þær tvær lásu yfir fyrir mig svo ég fékk kjark til að senda handritið inn.“

Hún kveðst strax komin af stað með næstu bók um sömu sögupersónur og í Arftakanum. „Það gengur þrusuvel, ég er alveg hissa á hvað mér finnst þetta gaman.“
Að lokum er hún innt eftir fjölskylduhögum. „Ég á mann og þriggja ára son. Bókin mín passar ekki fyrir drenginn strax en hann horfði á hana áðan og sagði: „Mamma, eigum við að lesa saman?“ Það var krúttlegt.“