Spennan hefur sjaldan verið meiri á lokadegi Forsetabikarsins heldur en í nótt en Bandaríkjamenn tryggðu sér sinn sjöunda sigur í röð á dramatískan hátt.
Fyrir lokahringinn þar sem einmenningur var spilaður átti bandaríska liðið eitt stig á stjörnu prýtt lið heimsúrvalsins en bæði lið tryggðu sér sex stig á lokahringnum og því sigruðu þeir bandarísku með 15 og hálfum vinningi gegn 14 og hálfum.
Hetja Bandaríkjanna reyndist Bill Haas, sonur Jay Haas, fyrirliða liðsins.
Bill hafði verið valinn í liðið af föður sínum við litla hrifningu margra en hann réttlætti valið svo sannarlega með því að ná í úrslitastigið í mögnuðum leik gegn heimamanninum Sang Moon Bae.
Bestu frammistöðu mótsins átti samt sem áður Suður-Afríkumaðurinn Branden Grace en hann sigraði alla sína fimm leiki fyrir Evrópuliðið þrátt fyrir að hafa spilað við stjörnur eins og Bubba Watson, Jordan Spieth og Rickie Fowler.
Forsetabikarinn í ár fullkomnaði stórskemmtilegt golftímabil þar sem Jordan Spieth og Jason Day skiptust á að grípa fyrirsagnirnar með frábærum frammistöðum en næsta tímabil á PGA-mótaröðinni hefst í næstu viku með Frys.com Open.
Bandaríkjamenn tryggðu sér Forsetabikarinn eftir mikla spennu á lokahringnum
