Valdís Þóra Jónsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbnum Leyni, lenti í 8. sæti á WPGA International Challenge mótinu í Englandi en mótið var lokamót LETAS-mótaraðarinnar í golfi.
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbi Reykjavíkur, náði sér ekki á strik í dag en hún lenti í 10. sæti á mótinu eftir að hafa verið í efsta sæti eftir fyrsta leikdag.
Líkt og kom fram hér fyrir ofan var þetta lokamót LETAS-mótaraðarinnar að ræða en mótaröðin er sú næst sterkasta í Evrópu. Komast efstu 20 kylfingarnir á hverju tímabili beint inn í lokaúrtökumótaröðið fyrir LET-Evrópumótaröðina, þá sterkustu í Evrópu.
Valdís hóf hring dagsins af miklum krafti en hún krækti í þrjá fugla og einn örn á fyrstu fimm holum vallarins en lauk fyrri níu holunum með skolla á 9. holu. Hún náði sér ekki jafn vel á strik á seinni níu holunum og lauk leik á einu höggi undir pari á deginum og einu höggi undir pari heilt yfir.
Ólafía sem lék á fjórum höggum undir pari á fyrsta degi lék fyrri níu holur dagsins á pari með þrjá fugla, þrjú pör og þrjá skolla náði líkt og Valdís ekki flugi á seinni níu holum dagsins. Fékk hún þrjá skolla og lauk leik á þremur höggum yfir pari, einu höggi yfir pari í heildina.
Valdís lauk leik í 8. sæti í Englandi

Tengdar fréttir

Ólafía Þórunn efst eftir fyrsta daginn á lokamótinu
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir úr GR og Valdís Þóra Jónsdóttir úr Leyni eru í góðri stöðu eftir fyrsta keppnisdaginn á lokamóti tímabilsins á LETAS atvinnumótaröðinni í golfi. Ólafía lék á 68 höggum eða fjórum höggum undir pari og er hún í efsta sæti. Valdís Þóra lék á pari vallar eða 72 höggum og er hún 10. til 14. sæti.

Ólafía og Valdís meðal efstu kylfinga fyrir lokahringinn
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR og Valdís Þóra Jónsdóttir, GL , eru meðal efstu kylfinga fyrir lokahringinn á lokamóti LETAS-mótaraðarinnar sem fer fram í Englandi í dag.