Körfubolti

Jón Arnór og félagar unnu níunda leikinn í röð

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Jón Arnór í leik með íslenska landsliðinu á Eurobasket í haust.
Jón Arnór í leik með íslenska landsliðinu á Eurobasket í haust. Vísir/Valli
Jón Arnór Stefánsson og félagar í Valencia unnu níunda leikinn í röð í spænsku deildinni í körfubolta á útivelli gegn Sevilla í dag en leiknum lauk með 14 stiga sigri Valencia, 81-67.

Valencia hefur farið gríðarlega vel af stað í spænsku deildinni og var í efsta sæti með tveggja stiga forskot á stórveldin Real Madrid og Barcelona.

Valencia leiddi allt frá fyrsta leikhluta og tók tveggja stiga forskot inn í hálfleik í stöðunni 30-28. Leikmönnum Valencia tókst að bæta við forskotið í þriðja og fjórða leikhluta og vinna að lokum öruggan sigur.

Jón Arnór nýtti tímann vel í dag en Jón lék aðeins tæplega 19 mínútur í leiknum en skilaði þrátt fyrir það 11 stigum, einu frákasti og stoðsendingu.

Hitti Jón úr tveimur af þremur tilraunum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna ásamt því að hitta úr öllum þremur vítaskotum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×