
"Þetta virðist liggja í genunum. Pabbi átti frímerkjasafn og við öll sex systkinin erum að safna einhverju,“ segir Sveinn sem sjálfur er afkastamestur í frímerkjunum en þó safnar hann ýmsu öðru sem honum þykir áhugavert.

Heillandi jólamerki
Hluti af safni Sveins eru svokölluð jólamerki sem eru styrktarmerki sem seld eru fyrir jólin til að safna fyrir gott málefni. „Jólamerkin hafa alltaf höfðað til mín. Það eru töluvert margir sem safna þeim víða um heim, enda eru þau bæði falleg og skemmtileg saga á bak við þau.“
Hann sýnir eina örk af bláum merkjum með mynd af fálka. „Þetta er allra fyrsta jólamerkið sem gefið var út á Íslandi,“ útskýrir Sveinn en það voru kaþólsku Caritas-samtökin í Danmörku sem gáfu þau til Íslands árið 1904 til að létta undir með byggingu barnahælis.

Sveinn heldur einnig upp á Akureyrarmerkin en það eru jólamerki sem Kvenfélagið Framtíðin gaf út á hverju ári allt til ársins 2003.
„Þeim hefur snarlega fækkað, þeim sem gefa út svona jólamerki. Fyrir tíu árum voru þetta um 10 aðilar en nú eru þetta aðallega Thorvaldsensfélagið, Rauði krossinn, Rótarý í Hafnarfirði og Lionsklúbburinn Þór.“
Fæstir vilja selja
En hvernig áskotnast honum frímerkin sem hann safnar? „Stundum kaupir maður söfn af því mann langar í eitthvað sem í þeim er. Svo reynir maður að losna við það sem maður notar ekki. Frímerkjasafnarar eru hópur sem þekkist vel og maður veit hver safnar hverju. Ef maður finnur eitthvað sem einhvern vantar, getur maður notað það til að fá eitthvað annað hjá honum í staðinn,“ lýsir Sveinn og segir fæsta vilja selja frímerki sín nema eitthvað annað betra bjóðist.