Körfubolti

Grátlegt eins stigs tap hjá Kristni og félögum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Kristinn Pálsson.
Kristinn Pálsson. Vísir/Getty
Njarðvíkingurinn Kristinn Pálsson og félagar hans í Marist-háskólaliðinu töpuðu með einu stigi á móti Delaware í bandaríska háskólakörfuboltanum í nótt.

Delaware vann leikinn 70-69 en Marist-liðið var með forystuna stóra hluta leiksins og fékk líka síðustu sóknina en lokaskorið geigaði.

Marist missti niður tólf stiga forskot á síðustu fimm mínútunum og hreinlega kastaði sigrinum frá sér.

Kristinn endaði með 3 stig, 3 fráköst og 2 stoðsendingar á 28 mínútum en hann hitti þó aðeins úr 1 af 9 skotum sínum og átta þeirra voru fyrir utan þriggja stiga línuna.

Kristinn átti sinn besta kafla í leiknum í upphafi seinni hálfleik og þriggja stiga karfa hans kom liðinu fjórum stigum yfir, 38-34, þegar rúmar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum.

Marist komst mest tólf stigum yfir þegar rúmar fimm mínútur voru eftir af leiknum, 65-53, en tapaði síðustu fimm mínútunum 17-4.

Marist-liðið hefur nú bara unnið 2 af fyrstu 8 leikjum sínum en þetta er fyrsta tímabil Kristins með liðinu.

Kristinn er með 5,8 stig og 3,9 fráköst að meðaltali í leik en hefur aðeins hitt úr 28 prósent skota sinna. Kristinn hefur byrjað alla átta leikina og er að spila 32,1 mínútu í leik.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×