Fótbolti

Neymar gæti verið lengi frá | Messi tæpur?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Neymar var á meðal áhorfenda í gær.
Neymar var á meðal áhorfenda í gær. Vísir/Getty
Luis Enrique, stjóri Barcelona, óttast að Brasilíumaðurinn Neymar verði frá í lengri tíma vegna nárameiðsla.

Neymar meiddist fyrir leik liðsins gegn Bayer Leverkusen í Meistaradeild Evrópu í gær en Barcelona var þegar komið áfram í 16-liða úrslitin. Enrique hvíldi því marga af sínum bestu leikmönnum í gær en leiknum lyktaði með 1-1 jafntefli.

„Staðan er ekki góð og við verðum að bíða og sjá hvað læknarnir segja,“ sagði Enrique eftir leikinn í gær. „Við vitum ekki hversu slæm meiðslin eru en vonandi nær hann sér á nokkrum dögum.“

„Það er alltaf slæmt að missa leikmann í meiðsli og hugsanlega langa fjarveru en við vonumst að meiðslin séu ekki jafn slæm og óttast er.“

Sjá einnig: Fótboltafantasía í hverjum leik

Barcelona heldur til Japan eftir nokkra daga til spila í heimsbikar félagsliða en faðir Neymar sagði við fjölmiðla í gær að kappinn muni að öllum líkindum ekki ná þeirri keppni.

Þá greina fjölmiðlar á Spáni frá því að óttast er að Lionel Messi hafi mögulega tognað aftan í læri í leiknum gegn Leverkusen í gær en hann er nýkominn aftur eftir að hafa verið lengi frá vegna hnémeiðsla.

Messi, sem skoraði í leiknum í gær, spilaði þó allar 90 mínúturnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×