Gagnrýni

Afrekshugur hafmeyjunnar Nínu Sæmundsson

Brynhildur Björnsdóttir skrifar
Bedúínakona, frá 1922, eftir Nínu Sæmundsson.
Bedúínakona, frá 1922, eftir Nínu Sæmundsson.
Bækur

Nína S.

Hrafnhildur Schram

Útgefandi: Crymogea

Fjöldi síðna: 158

Bókarhönnun: Studio Arnar Freyr Guðmundsson, Birna Geirfinnsdóttir

Kápumynd: Sigurjón Guðjónsson



Eins og hafmeyja sem syndir sinna ferða fór Nína Sæmundsson höggmyndalistakona aðrar leiðir en flest samferðafólk hennar og líf hennar var hvorki hefðbundið né þjóðsagnakennt heldur meira í ætt við hreinræktað ævintýri. Þessi kotbóndadóttir og vinnukona úr Fljótshlíð fann hjá sér þrá eftir einhverju meiru en Reykjavík hafði upp á að bjóða í upphafi tuttugustu aldar og fyrir sambland af tilviljunum og ákveðni lá leið hennar um þann heim sem fæstir Íslendingar á þessum tíma gátu ímyndað sér, allt frá heilsuhæli í Ölpunum í úlfaldaferð um eyðimerkur.

Nína S. var sveltandi listakona í París á þriðja áratugnum, bjó lengi í Hollywood með ástkonu sinni og kynntist þar mörgum helstu goðsögnunum á upphafsárum talmyndanna, var virt, eftirsótt og dáð fyrir list sína víða um heim og flutti svo heim til Íslands upp úr sextugu og bjó við hógvær kjör til æviloka. Eitt það verk sem henni þótti hvað vænst um, Hafmeyjan sem stóð í stutta stund og stendur nú aftur í Reykjavíkurtjörn, var sprengt í loft upp af nafnlausum aðilum sem töldu verkið „ósiðlegt“ en líklegra má telja að það hafi verið líf og sjálfstæði listakonunnar sem þótti fara of langt út fyrir rammann.

Bókin um ævi Nínu S. er einstaklega áhugaverð, sagan af þessari stórmerkilegu konu sem fór þá leið sem hjartað bauð henni, hvort sem var í ævistarfi eða einkalífi, lýsir metnaði og ástríðu sem sjaldgæft var að konur létu eftir sér á þessum tímum, hvað þá smábændadætur úr íslenskri sveit. En hún er ekki síður heillandi vegna þess hvernig höfundur fléttar saman sköpunar- og listaverkasögu Nínu og ævisögu hennar og þá viðburði sem mótuðu listsköpun hennar. Bókin er líka sérdeilis fallegur gripur, ljósmyndir af verkum Nínu fá að njóta sín í bland við myndir af henni á ýmsum æviskeiðum og við vinnu sína sem gæða textann aftur enn meira lífi.

Nína Sæmundsson hlaut gríðarlega upphefð vegna listsköpunar sinnar úti í hinum stóra heimi. Hún vann virtar samkeppnir um að frumskapa stór og afgerandi listaverk sem standa enn í dag, en þeirra þekktast er vafalaust Afrekshugur, sem prýðir hið þekkta hótel Waldorf Astoria þar sem sjá má myndgerða hugmyndina um sigurgyðjuna Nike en mynd af því verki er á forsíðu bókarinnar. Þrátt fyrir þessa upphefð utan frá voru Íslendingar þó ekki á því að þessi kona hefði neitt sérstakt til brunns að bera umfram að vera „liðtækur hagyrðingur á sviði höggmyndalistar, þó hún sé ekki stórskáld“ eins og einn gagnrýnandi orðaði það og greinilegt að margir hérlendis áttu erfitt með að sjá fyrir sér að kona gæti yfirhöfuð gert eitthvað eins líkamlega krefjandi og að höggva í stein.

Kannski er það þess vegna sem kona í nútímanum, sem er ekkert sérstaklega að leggja sig eftir myndlist en þekkir auðvitað Kjarval, Ásgrím og Einar, veit eins lítið um Nínu S. og raun ber vitni. Þökk sé þessari bók veit ég loksins eitthvað en langar að vita svo miklu meira. Sem betur fer stendur enn yfir sýning á verkum Nínu í Listasafni Íslands og hafmeyjan situr aftur á Tjörninni.

Niðurstaða: Nína S. er einstaklega falleg bók og sögu þessarar listakonu á heimsmælikvarða ættu sem flestir að kynna sér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×