Í öll fjögur skiptin eru það einmitt stelpurnar úr Safamýrinni sem hafa komið í veg fyrir fullkomið ár. Fram vann að þessu sinni Gróttu í æsispennandi undanúrslitaleik en hafði áður tekið fimmta titil ársins fyrir framan nefið á fjórföldu meistaraliði.
Kvennalið Fram bar ábyrgð á því að Valsliðin á árunum 2010 til 2012 náðu aldrei fullu húsi en Hlíðarendaliðið vann 12 af 15 mögulegum titlum á þessum 36 mánuðum.
Framkonur unnu bikarúrslitaleik liðanna fyrstu tvö árin en á síðasta árinu vann Framliðið Valskonur í síðasta leik ársins, úrslitaleik deildabikarsins í Laugardalshöllinni í desember 2012.
Stefán Arnarson var þjálfari Valsliðsins sem vann fjóra titla þrjú ár í röð. Nú er Stefán hins vegar þjálfari Framliðsins sem kom í veg fyrir að Gróttukonur gerðu sögulegt ár liðsins enn sögulegra.
Gróttuliðið varð bikarmeistari í febrúar, deildarmeistari í mars, Íslandsmeistari í maí og meistari meistaranna í september. Þetta eru fyrstu titlar Gróttu í meistaraflokki kvenna og það hefði vissulega verið magnað að taka fullt hús á slíku ári.
