Viðskipti innlent

WOW air fékk nýjar flugvélar með ríflegum afslætti

jón hákon halldórsson skrifar
Forstjórinn WOW air mun hefja flug til Bandaríkjanna í mars.
Forstjórinn WOW air mun hefja flug til Bandaríkjanna í mars. fréttablaðið/anton
Nýjar Airbus A321-211 flugvélar WOW air voru keyptar með ríflegum afslætti, segir Skúli Mogensen forstjóri fyrirtækisins. Hann segir þó ekki hvað þær kostuðu.

Í tilkynningu sem WOW sendi á dögunum kemur fram að listaverð vélanna er 110 milljónir dollara, eða rétt innan við fimmtán milljarða króna, fyrir hvora vél. Ljóst er að fjárfestingin mun setja svip á reikninga WOW air því samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2013 nam eigið fé og skuldir félagsins í lok þess árs 2,98 milljörðum króna.

„Þetta er stór fjárfesting sem styrkir okkur til muna,“ segir Skúli.

Skúli segir að vélarnar séu fengnar með kaupleigu til tólf ára þannig að fyrirtækið muni eignast vélarnar á þeim tíma. „Lykillinn að þessu er að við gengum inn í mun stærri samning á mjög hagstæðum kjörum og það er það sem gerir okkur kleift að fjármagna þessar vélar með þessum hætti,“ segir hann.

Vélarnar verða notaðar í flugi til Boston og Washington en síðan líka til Evrópu. Skúli segir að það standi svo til að stækka leiðakerfi WOW air. „Ég hef orðið var við að það eru einhverjir að gera lítið úr þessum kaupum, að þetta séu ekki nýjar vélar. Þetta eru glænýjar vélar beint úr kassanum og þeim hefur ekki verið flogið áður, þó að þær hafi verið á leiðinni til Rússlands,“ segir Skúli.

Hingað til hefur WOW air verið með vélar á leigu. „Núna erum við búin að festa okkur í sessi og þá líður mér betur með að gera langtímafjárfestingar sem flugvélakaup eru vissulega. Þá er mun hagstæðara svo lengi sem þú getur fengið réttu flugvélarnar á réttum kjörum og á hagstæðari fjármögnun að kaupa þær en að leigja til lengri tíma,“ segir hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×