Norðurlönd í ljóma Þorvaldur Gylfason skrifar 19. febrúar 2015 07:00 Hvað er svona merkilegt við Norðurlönd? Hvers vegna njóta þau vegs og virðingar um allan heim? Stutta svarið er, að Norðurlandaþjóðirnar hafa búið sér svipuð lífskjör og Frakkar og Þjóðverjar, helztu forustuþjóðir ESB. Ekki er sjálfgefið, að þjóðum á hjara álfunnar geti tekizt að búa sér lífskjör svipuð þeim, sem þjóðirnar í hjarta álfunnar búa við. Það hefur íbúum Norðurlanda þó tekizt, t.d. ef miðað er við þjóðartekjur á hverja vinnustund, sem er skásti tiltæki hagræni mælikvarðinn á lífskjör. Árið 2013 voru þjóðartekjur á hverja vinnustund 55 Bandaríkjadalir í Þýzkalandi, 50 dalir í Danmörku, 47 dalir í Frakklandi og 45 dalir í Svíþjóð borið saman við 72 dali í Noregi og 33 dali á Íslandi. Hér er stuðzt við gögn Alþjóðabankans um kaupmátt þjóðartekna og tölur hagfræðinga við Háskólann í Groningen í Hollandi um fjölda vinnustunda. Hér sjást engin merki um, að skattpíning eða önnur áþján hafi dregið þrótt úr norrænu efnahagslífi. Að ýmsu leyti vegnar Norðurlandaþjóðunum jafnvel betur en grönnum þeirra sunnar í álfunni. Atvinnuleysi er nú t.d. mun minna á Norðurlöndum en í Frakklandi líkt og löngum fyrr, en þó meira en í Þýzkalandi. Öll þessi Evrópulönd eiga það sammerkt, að þar er engin umtalsverð lágstétt, sem fer alls á mis líkt og í Bandaríkjunum og mörgum þróunarlöndum. Þéttriðnu velferðarneti Evrópulandanna, sem á rætur að rekja til áranna eftir sameiningu Þýzkalands 1871, er ætlað að tryggja, að enginn þurfi þar að líða skort. Það hefur tekizt betur í Evrópu en í Bandaríkjunum.Viðskipti og tækni Árangri Norðurlandanna er hægt að lýsa með ýmsum áherzlum. Norðurlandaþjóðirnar hafa komið sér upp opnu samfélagi, sem hefur hagkvæmni og réttlæti að leiðarljósi. Norðurlöndin eru lítil, þ.e.a.s. fámenn, borið saman við flest önnur Evrópulönd og hafa reynt að bæta sér upp óhagræði af völdum smæðarinnar með sívaxandi viðskiptum við umheiminn. Frá 1970 hafa Danir og Svíar náð að tvöfalda útflutning sinn á vörum og þjónustu miðað við landsframleiðslu líkt og Frakkar borið saman við þreföldun í Þýzkalandi, einu mesta útflutningsveldi álfunnar. Til samanburðar minnkaði útflutningur vöru og þjónustu frá Íslandi miðað við landsframleiðslu um fimmtung frá 1970 til 2007 í skugga hágengisstefnu stjórnvalda, sem einnig mætti kalla hálfgildings innilokunarstefnu. Við hrunið tók útflutningur langþráðan kipp, einkum ferðaþjónusta, þegar gengi krónunnar féll um helming. Þannig stendur á því, að vægi útflutnings í landsframleiðslunni 2013 var orðið fjórðungi meira hér heima en 1970, en þó langt í frá tvöfalt meira eins og í Danmörku, Frakklandi og Svíþjóð, hvað þá þrefalt meira eins og í Þýzkalandi.Velferð Hvernig tókst Norðurlandaþjóðunum að sigrast á útbreiddum ótta við erlend viðskipti? Hér hefur velferðarkerfið líkt og í Frakklandi og Þýzkalandi gegnt mikilvægu hlutverki. Launþegar þóttust geta treyst því að þurfa ekki að bera skarðan hlut frá borði, a.m.k. ekki varanlega, vegna aukinnar samkeppni frá útlöndum. Skilvirk velferðarstefna eflir traust og skapar um leið skilyrði til að efla efnahagslífið með erlendri samkeppni. Eitt leiddi af öðru. Opingáttarstefna Norðurlandanna efldi smám saman nýsköpun og frelsi einnig í innlendum viðskiptum. Upp spratt öflugur hátækniiðnaður, sem gerði Svíþjóð og Finnland um skeið að stórveldum á heimsmarkaði fyrir hátæknivörur, einkum farsíma. Svíar og Finnar verja hlutfallslega mun meira fé til rannsókna- og þróunarstarfs en Þjóðverjar og Frakkar. Alþjóðabankinn gefur Norðurlöndum háa einkunn fyrir auðvelt viðskiptaumhverfi, Dönum hæsta einkunn, þá Norðmönnum, Finnum, Svíum og Íslendingum. Þjóðverjar og Frakkar fá lægri einkunn en öll Norðurlöndin. Aldrei heyrast forustumenn í norrænu stjórnmála- eða viðskiptalífi hreykja sér af góðum árangri.Framar á flestum sviðum? Þessi örstutta greinargerð um árangur Norðurlanda gefur tilefni til að rifja upp yfirlýsingu Viðskiptaráðs hálfu ári fyrir hrun 2008: „Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.“ Eitthvað virðist það þó ætla að vefjast fyrir vinnuveitendum að bjóða starfsmönnum sínum kaup og kjör, sem þættu boðleg annars staðar um Norðurlönd. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorvaldur Gylfason Mest lesið Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Sjálfræðissvipting þjóðar Ægir Örn Arnarson Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun
Hvað er svona merkilegt við Norðurlönd? Hvers vegna njóta þau vegs og virðingar um allan heim? Stutta svarið er, að Norðurlandaþjóðirnar hafa búið sér svipuð lífskjör og Frakkar og Þjóðverjar, helztu forustuþjóðir ESB. Ekki er sjálfgefið, að þjóðum á hjara álfunnar geti tekizt að búa sér lífskjör svipuð þeim, sem þjóðirnar í hjarta álfunnar búa við. Það hefur íbúum Norðurlanda þó tekizt, t.d. ef miðað er við þjóðartekjur á hverja vinnustund, sem er skásti tiltæki hagræni mælikvarðinn á lífskjör. Árið 2013 voru þjóðartekjur á hverja vinnustund 55 Bandaríkjadalir í Þýzkalandi, 50 dalir í Danmörku, 47 dalir í Frakklandi og 45 dalir í Svíþjóð borið saman við 72 dali í Noregi og 33 dali á Íslandi. Hér er stuðzt við gögn Alþjóðabankans um kaupmátt þjóðartekna og tölur hagfræðinga við Háskólann í Groningen í Hollandi um fjölda vinnustunda. Hér sjást engin merki um, að skattpíning eða önnur áþján hafi dregið þrótt úr norrænu efnahagslífi. Að ýmsu leyti vegnar Norðurlandaþjóðunum jafnvel betur en grönnum þeirra sunnar í álfunni. Atvinnuleysi er nú t.d. mun minna á Norðurlöndum en í Frakklandi líkt og löngum fyrr, en þó meira en í Þýzkalandi. Öll þessi Evrópulönd eiga það sammerkt, að þar er engin umtalsverð lágstétt, sem fer alls á mis líkt og í Bandaríkjunum og mörgum þróunarlöndum. Þéttriðnu velferðarneti Evrópulandanna, sem á rætur að rekja til áranna eftir sameiningu Þýzkalands 1871, er ætlað að tryggja, að enginn þurfi þar að líða skort. Það hefur tekizt betur í Evrópu en í Bandaríkjunum.Viðskipti og tækni Árangri Norðurlandanna er hægt að lýsa með ýmsum áherzlum. Norðurlandaþjóðirnar hafa komið sér upp opnu samfélagi, sem hefur hagkvæmni og réttlæti að leiðarljósi. Norðurlöndin eru lítil, þ.e.a.s. fámenn, borið saman við flest önnur Evrópulönd og hafa reynt að bæta sér upp óhagræði af völdum smæðarinnar með sívaxandi viðskiptum við umheiminn. Frá 1970 hafa Danir og Svíar náð að tvöfalda útflutning sinn á vörum og þjónustu miðað við landsframleiðslu líkt og Frakkar borið saman við þreföldun í Þýzkalandi, einu mesta útflutningsveldi álfunnar. Til samanburðar minnkaði útflutningur vöru og þjónustu frá Íslandi miðað við landsframleiðslu um fimmtung frá 1970 til 2007 í skugga hágengisstefnu stjórnvalda, sem einnig mætti kalla hálfgildings innilokunarstefnu. Við hrunið tók útflutningur langþráðan kipp, einkum ferðaþjónusta, þegar gengi krónunnar féll um helming. Þannig stendur á því, að vægi útflutnings í landsframleiðslunni 2013 var orðið fjórðungi meira hér heima en 1970, en þó langt í frá tvöfalt meira eins og í Danmörku, Frakklandi og Svíþjóð, hvað þá þrefalt meira eins og í Þýzkalandi.Velferð Hvernig tókst Norðurlandaþjóðunum að sigrast á útbreiddum ótta við erlend viðskipti? Hér hefur velferðarkerfið líkt og í Frakklandi og Þýzkalandi gegnt mikilvægu hlutverki. Launþegar þóttust geta treyst því að þurfa ekki að bera skarðan hlut frá borði, a.m.k. ekki varanlega, vegna aukinnar samkeppni frá útlöndum. Skilvirk velferðarstefna eflir traust og skapar um leið skilyrði til að efla efnahagslífið með erlendri samkeppni. Eitt leiddi af öðru. Opingáttarstefna Norðurlandanna efldi smám saman nýsköpun og frelsi einnig í innlendum viðskiptum. Upp spratt öflugur hátækniiðnaður, sem gerði Svíþjóð og Finnland um skeið að stórveldum á heimsmarkaði fyrir hátæknivörur, einkum farsíma. Svíar og Finnar verja hlutfallslega mun meira fé til rannsókna- og þróunarstarfs en Þjóðverjar og Frakkar. Alþjóðabankinn gefur Norðurlöndum háa einkunn fyrir auðvelt viðskiptaumhverfi, Dönum hæsta einkunn, þá Norðmönnum, Finnum, Svíum og Íslendingum. Þjóðverjar og Frakkar fá lægri einkunn en öll Norðurlöndin. Aldrei heyrast forustumenn í norrænu stjórnmála- eða viðskiptalífi hreykja sér af góðum árangri.Framar á flestum sviðum? Þessi örstutta greinargerð um árangur Norðurlanda gefur tilefni til að rifja upp yfirlýsingu Viðskiptaráðs hálfu ári fyrir hrun 2008: „Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.“ Eitthvað virðist það þó ætla að vefjast fyrir vinnuveitendum að bjóða starfsmönnum sínum kaup og kjör, sem þættu boðleg annars staðar um Norðurlönd.
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun
Lífsstílslæknar og samsæriskenningar um mettaða fitu Guðrún Nanna Egilsdóttir,Thor Aspelund,Jóhanna E. Torfadóttir Skoðun