Handbolti

Úrslitaleikur í Kiel

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Aron Pálmarsson mun spila stórt hlutverk í leiknum gegn Löwen á morgun.
Aron Pálmarsson mun spila stórt hlutverk í leiknum gegn Löwen á morgun. fréttablaðið/getty
Leikur ársins í þýska handboltanum fer fram á morgun þegar tvö bestu lið Þýskalands mætast í leik sem gæti gert út um titilbaráttuna í Þýskalandi.

Topplið Kiel tekur þá á móti Rhein-Neckar Löwen. Kiel er með tveggja stiga forskot á toppnum en hefur leikið einum leik meira. Mikil spenna er fyrir leiknum í Kiel og þeir miðar sem fóru í sölu á leikinn seldust upp á 20 mínútum. Rúmlega 10 þúsund manns munu gera allt vitlaust á leiknum en forráðamenn Kiel sögðust auðveldlega hafa getað selt tíu þúsund miða í viðbót.

„Þetta verður mjög erfitt fyrir okkur að öllu leyti ef Kiel vinnur. Kiel er til að mynda með mun betra markahlutfall og ég sé ekki hvar liðið á að tapa stigum. Við verðum, og ætlum, okkur að vinna þennan leik,“ sagði Nikolaj Jacobsen, þjálfari Löwen, en Kiel varð meistari á markamun í fyrra.

Stefan Kretzschmar handboltaspekingur segir að titillinn sé undir í þessum leik.

„Ef Kiel vinnur þá er liðið orðið meistari. Liðið hefur verið að bæta sig í allan vetur og það er mikið sjálfstraust í liðinu. Ég held að liðið tapi ekki fleiri stigum í vetur,“ sagði Kretzschmar.

Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel og Aron Pálmarsson spilar með liðinu. Alexander Petersson og Stefán Rafn Sigurmannsson spila með Löwen. Leikurinn er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport og hefst útsending klukkan 15.10.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×