Citizenfour hlaut Óskarsverðlaun sem besta heimildarmyndin í febrúar og segir Poitras verðlaunin hafa komið sér talsvert á óvart. „Það kom mjög á óvart, þegar við vorum í Hong Kong voru það ekki verðlaunin sem við höfðum áhyggjur af, það voru meira aðkallandi hlutir,“ segir hún alvarleg en stærstur hluti myndarinnar gerist í borginni og fylgir hún Snowden eftir frá því fyrstu gögnin voru birt.
Snowden er sem stendur með pólitískt hæli í Rússlandi og segir Poitras þau halda sambandi.
Poitras hefur alltaf verið meðvituð um það að nota samskiptatækni og internetið á ábyrgan hátt, en hún hafi aukið við meðvitund sína og varúðarráðstafanir eftir að hafa komist í samband við Snowden. Einnig var hún verið sett á sérstakan eftirlitslista í kjölfar útgáfu myndarinnar sem hafi meðal annars gert ferðalög erfið.
Þrátt fyrir það sem flestir gætu haldið var það að gerast kvikmyndagerðarkona og leikstjóri sem tekur gríðarlegar áhættur við það að færa almenum borgurum sannleikann ekki það sem Pointras stefndi alltaf að því hún starfaði á öðrum vettvangi í talsverðan tíma áður en hún lagði kvikmyndagerð fyrir sig.

„Þegar ég byrjaði að gera myndir gerði ég mjög abstrakt myndir. Ég er feimin og ég sá aldrei fyrir mér að ég myndi fara inn í líf fólks og segja frá því á þennan máta,“ segir hún afslöppuð en næsta verkefni hennar verður sýning í Whitney Museum of American Art og segir hún efnistök sýningarinnar tengd þeim sem fjallað er um í Citizenfour, þó uppsetningin sé á annan máta.
Citizenfour er sýnd á kvikmyndahátíðinni Shorts & Docs klukkan átta í kvöld í Bíó Paradís. Eftir sýningu myndarinnar munu Poitras og Kristinn Hrafnsson svara spurningum áhorfenda auk þess sem Pointas mun vera með ókeypis masterclass á vegum kvimyndarhátíðarinnar sem einnig fer fram í Bíó Paradís og hefst klukkan þrjú í dag.