Viðskipti innlent

Stefna á fjármögnun án ríkisábyrgðar

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Hörður segir að miðað við stærð fyrirtækisins og styrk eigi það að geta skilað miklu meiri arði.
Hörður segir að miðað við stærð fyrirtækisins og styrk eigi það að geta skilað miklu meiri arði. fréttablaðið/ernir
Landsvirkjun stendur á tímamótum nú þegar fimmtíu ár eru liðin frá stofnun fyrirtækisins. Upphaf rekstursins má rekja til þess þegar Búrfellsvirkjun var reist árið 1965. Hörður Arnarson forstjóri leit yfir farinn veg og kynnti framtíðarsýn fyrirtækisins á ársfundi sem var haldinn í gær.

Umfangsmikil framkvæmd

„Í heildina þá teljum við að fyrirtækið standi á traustum grunni, sem hefur verið lagður á þessum fimmtíu árum. Það hafa verið teknar margar farsælar ákvarðanir, en oft erfiðar ákvarðanir og flóknar ákvarðanir,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, í samtali við Markaðinn. Hann nefnir sem dæmi að það hafi verið mikil ákvörðun að ráðast í Búrfellsvirkjun. Umfangið á framkvæmdinni hafi verið mikið og það verið óvissu háð að byggja flókna vatnsaflsvirkjun í jökulfljóti sem hafði ekki verið gert áður, hátt uppi á hálendi Íslands. Efnahagslegt umfang framkvæmdarinnar hafi verið gríðarlega mikið. „Menn hafa tekið fjölmargar svona ákvarðanir í sögu Landsvirkjunar sem hafa síðan reynst farsælar. Hönnun virkjana hefur undantekningarlaust gengið vel og reksturinn hefur einnig gengið vel og síðan erum við með langan líftíma á þeim. Eins og til dæmis Búrfellsvirkjun sem er bara eins og ný í dag. Sogsvirkjanir, sem eru enn þá eldri, sjötíu ára gamlar, þær eru ekkert farnar að gefa eftir,“ segir hann. 

Hörður segir að þetta hafi alls ekki verið augljóst þegar Búrfellsvirkjun var byggð. „Þá töldu menn að þetta væri trúlega einhver síðasta vatnsaflsvirkjun sem yrði byggð fyrir stóriðju. Þá var kjarnorkan að koma inn og þá töldu menn að kjarnorkan myndi leysa öll heimsins vandamál. Það hefur alls ekkert orðið raunin og þessir endurnýjanlegu orkugjafar eru að sækja í sig veðrið og sérstaklega vatnsaflið,“ segir Hörður.

Sterkari fjárhagur fyrirtækisins

Hörður segir að fjárhagur Landsvirkjunar hafi styrkst mikið. „Á síðustu fimm árum hefur fyrirtækið greitt niður lán að upphæð 82 milljarðar samtímis því að fjárfesta fyrir um 68 milljarða,“ segir Hörður. Fjármunamyndunin sé því um 150 milljarðar og eiginfjárhlutfallið komið í um fjörutíu prósent. „Þannig að fyrirtækið er stöðugt að styrkja sig, en við verðum að halda áfram að styrkja fjárhaginn. Við skuldum enn þá of mikið. Ef við höldum áfram núna í svona tvö til þrjú ár að greiða niður skuldir þá teljum við okkur vera komin á þann stað þar sem fyrirtækið þarf að vera. Þá erum við líklega komin á þann stað að fyrirtækið getur endurfjármagnað lán sem eru á gjalddaga á hagkvæman hátt og án ríkisábyrgðar. Þá hefur fyrirtækið möguleika á að borga verulegan arð,“ segir Hörður. Hann bendir á að fyrirtækið hafi greitt um einn og hálfan milljarð á ári undanfarin fjögur ár. 

„Sem er ágætisarðgreiðsla í hugum margra en fyrir fyrirtæki á stærð við Landsvirkjun, með þær eignir og með það eigið fé, þá er það lágt. En það er eingöngu af því að við höfum verið að borga niður lánin. Við höfum fyrst og fremst verið að nota alla þá peninga sem hafa myndast hjá fyrirtækinu í lækkun skulda,“ segir Hörður. En þegar aðgengi að endurfjármögnun verði betra þá geti eigandinn, það er íslenska ríkið, ákveðið að í staðinn fyrir að fyrirtækið greiði niður lánin þá sé hægt að auka arðgreiðslur. Eftir tvö til þrjú ár geti fyrirtækið farið að greiða stigvaxandi meiri arð og hann geti innan fárra ára verið kominn upp í 10 til 20 milljarða króna á ári miðað við núverandi rekstur. Arðgreiðslurnar gætu orðið enn hærri ef raforkuverð hækkar. 

Hörður segir markmiðið vera að ná betri styrk til þess að fyrirtækið geti endurfjármagnað sig án ríkisábyrgðar. „Já, við teljum að það sé forsendan fyrir því að við borgum eigandanum okkar arð. Það er að við þurfum ekki að biðja hann um ábyrgð. Það er ákveðin mótsögn að okkar mati í því að fjármagna sig með ábyrgð eiganda en að greiða honum um leið arð. En það er að sjálfsögðu alltaf eigandinn sem ákveður þetta. Eigandinn hefur stutt vel við fyrirtækið með því að taka lítinn arð út úr því. Það hefur gert því kleift að vaxa mikið með byggingu virkjana og núna að lækka skuldirnar sem var nauðsynlegt eftir mikið uppbyggingartímabil sem lauk árið 2007,“ segir Hörður.

Keyptu hlut sveitarfélaganna

Allt til ársins 2006 áttu Reykjavíkurborg og Akureyrarbær helmingshlut í Landsvirkjun á móti ríkinu, en í nóvember það ár var undirritaður samningur um kaup íslenska ríkisins á hlutum sveitarfélaganna. Skipti breytt eignarhald máli?

„Það var ýmislegt í stjórnarháttum fyrirtækisins sem breyttist á sama tíma. Ég held að það hafi myndast betri sátt um stjórnun Landsvirkjunar. Stjórn Landsvirkjunar hefur um langt árabil verið mjög samhent, sem er mjög mikilvægt. Áður fyrr voru oft pólitískar deilur teknar inn í stjórnina. En um leið og eignarhaldið breyttist tókst eigandanum að koma bættum stjórnarháttum í stjórnina,“ segir Hörður. 

Stjórnendur Landsvirkjunar hafa áhuga á að leggja sæstreng til Bretlands, eruð þið og eigandinn að tala sama máli þar?

„Já, það myndi ég segja. Það sem við erum að leggja áherslu á er að þetta mál verði skoðað af fullri alvöru. Við teljum að það séu mjög áhugaverð tækifæri bara út af ástandi í orkukerfinu í Bretlandi. Það er mikill áhugi í Bretlandi í dag að skoða sæstreng til Íslands. Þeir eru að tengja sig við Noreg, Danmörku, Holland, Þýskaland, Írland. Þeir eru að tengja sig við öll þessi lönd af því að orkuöryggi Bretlands er í hættu,“ segir Hörður.

„Við teljum að það sé sterkur stuðningur við að skoða þetta mál. En það er vissulega mikilvægt að skoða þætti eins og hvaða áhrif þetta hefur á orkuverð til heimila og hvaða áhrif þetta hefur á starfsumhverfi orkufreks iðnaðar, hvaða umhverfisáhrif þetta hefur og svo framvegis,“ segir Hörður. Hann leggur áherslu á að Landsvirkjun sé ekki að hvetja til þess að sæstrengur verði lagður heldur að málið sé skoðað gaumgæfilega. Það séu núna mjög góðar aðstæður í Bretlandi til þess að leggja sæstreng þangað. „Niðurstaðan gæti leitt til þess að þetta sé ekki rétt á þessum tímapunkti, en það er hins vegar afar líklegt að það verði lagður sæstrengur milli Íslands og Bretlands einhvern tímann,“ segir Hörður. Hann segir að það muni taka minnst tvö til þrjú ár að kanna hvort það geti verið vænlegt að leggja sæstreng áður en mótaðar tillögur um slíkt verða lagðar fram. 

Hörður segir að gert sé ráð fyrir að 35-40 prósent af þeirri orku sem yrði flutt út um sæstreng væri umframorka sem yrði annars ekki nýtt, svo kæmi til önnur orka eins og vindorka eða jarðvarmi. Að auki þyrfti að koma til orka frá hefðbundnum virkjunum, sem gæti orðið þriðjungur af orkunni. Það myndi því þurfa að koma til fleiri virkjana ef sæstrengur yrði lagður.

Eftirspurnin meiri en framboðið

Hörður segir þó að lagning sæstrengs sé hluti af framtíðarsýn. Öll vinna Landsvirkjunar núna snúist um sölu á raforku til iðnfyrirtækja. Hann bendir á að eftirspurn eftir orkunni sé að aukast. „Við erum að sjá mun meiri eftirspurn en við höfum séð áður. Það er að gerast í fyrsta skipti núna að eftirspurnin er meiri en framboðið. Og það er komið til að vera að okkar mati,“ segir Hörður. Hann segir að þessi þróun hafi staðið yfir í fjögur til fimm ár og skýrist af ákveðnum aðstæðum í raforkukerfi heimsins. „Það eru fleiri og fleiri fyrirtæki sem vilja horfa til Íslands. Við erum að horfa til kísilmálmiðnaðarins, gagnaveranna og jafnvel eldsneytisframleiðslu og fleira,“ segir Hörður. Þetta hafi mjög jákvæð áhrif á raforkumarkaðinn. „Þetta er alveg ný staða og það er mjög krefjandi fyrir raforkuiðnaðinn að vera allt í einu kominn í stöðu þar sem er meiri eftirspurn en framboð. Þetta hefur jákvæð áhrif fyrir eiganda fyrirtækisins, að raforkuverð í nýjum samningum hefur hækkað umtalsvert sem mun þá hafa jákvæð áhrif í endursamningum við eldri viðskiptavini. sem eru fram undan núna,“ segir Hörður. Afkoma Landsvirkjunar muni batna fyrir vikið. 

Hvaða virkjunarframkvæmdir eru fyrirsjáanlegar í framtíðinni? Nú verður byrjað á Þeistareykjum í sumar.

„Næsta skref verður líklegast stækkun á Búrfelli,“ segir Hörður. Þar verði byggð önnur virkjun við hliðina á Búrfelli og orkan nýtt betur þar. „Svo er það að horfa til rammaáætlunar, hvaða virkjanakosti Alþingi heimilar að ráðast í. Næstu skref verða ákveðin með það til hliðsjónar,“ segir Hörður. Hann segir mikilvægt að hafa í huga að allar framkvæmdir Landsvirkjunar hafi umtalsverð umhverfisáhrif, bæði á umhverfi og lífríki. „Við erum mjög meðvituð um það og við leggjum mikla áherslu á það þegar við ráðumst í framkvæmdir, að greina áhrif framkvæmdanna og erum í áratuga rannsóknum með verkefni áður en við förum út í hönnunina á þeim. Þegar við förum út í frumhönnun á þeim þá reynum við að draga úr neikvæðum áhrifum og auka jákvæð eins og kostur er. Þegar við erum búin að því þá leggjum við þessa kosti fram,“ segir Hörður. Hann segir mikilvægt að fólk geri sér grein fyrir því að það sé ekki Landsvirkjun sem ákveði að fara í framkvæmdir. „Við höfum enga heimild til þess,“ segir hann. Fyrirtækið leggi fram tillögur í rammaáætlun og í skipulagslöggjöf, þar sem vandað umsagnar- og samráðsferli fer fram og á grundvelli þess taki annars vegar Alþingi og hins vegar stjórnvöld ákvarðanir um það hvort heimilt sé að ráðast í virkjanirnar.

Deilurnar há fyrirtækinu

Rammaáætlun virðist valda miklum deilum á Alþingi og vera umdeilt mál, háir það fyrirtækinu?

„Já, það gerir það. Að mínu mati eru allar forsendur til þess að okkur takist, eins og Norðmönnum, að ná breiðri sátt allra helstu stjórnmálaflokka um þessi stóru auðlindamál; raforkuuppbygginguna, sæstrengina og eins um olíuna,“ segir Hörður. Hann segist telja að þrátt fyrir allt séu flestir sammála um fjögur grundvallaratriði.

1 Við viljum umfangsmikla vernd á mikilvægum náttúrusvæðum.

2 Við viljum frekari varfærna nýtingu orkuauðlinda í efnahagslegum tilgangi. 

3 Ég held að við séum sammála um það að selja raforku til fjölbreyttari viðskipavina.

4 Ég tel að við séum sammála um það að fá betra verð fyrir orkuna.

„Ég held að ef menn myndu skoða sjónarmið mjög stórs hóps aðila þá rúmast þau innan þessa,“ segir Hörður. Það verði alltaf álitamál um það hvar mörkin liggja um einstaka kosti.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×