Margir eru að verða ansi tjúllaðir Jón Gnarr skrifar 6. júní 2015 07:00 Ísland á í miklum vanda. Við stöndum frammi fyrir flóknum úrlausnarefnum; gjaldeyrishöftum, heilbrigðismálum, kaupmætti og fátækt, húsnæðisvanda og svo öllu fjármálakerfinu. Ferðamennska hefur aukist og nú er svo komið að yfir milljón ferðamenn koma til landsins á hverju ári. Ferðamenn eru helsta uppspretta gjaldeyristekna okkar. En um leið verða til ný vandamál – því vandi fylgir vegsemd hverri. Um leið og við fögnum skemmtilegum gestum þá höfum við áhyggjur af átroðningi og hugsanlegum skemmdum á vinsælum stöðum. Og engir eru alveg sammála um allt. Fólk greinir á um hvernig eigi að leysa þessi mál öll. Og eins og alltaf þá hafa þeir yfirleitt bestu ráðin sem hafa minnstu aðkomuna. Á Íslandi er heil stétt sérfræðinga sem hefur enga reynslu af því sem þeir eru sérfræðingar í. Margir eru með masterspróf í því að reka búð en hafa ekki einu sinni unnið í sjoppu. Ofan á þetta koma svo fjölmiðlar sem leggja sitt huglæga mat á hvað sé fréttnæmt og hvernig eigi að segja frá því. Yfirvegun fer þverrandi og meira er um upphrópanir og alhæfingar. Margir eru að verða ansi tjúllaðir og þjóðin klofnar í mismunandi hreyfingar og undirhópa. Traust fer minnkandi. Fólk vill helst ekki að þeir sem það valdi til að stjórna landinu stjórni því, heldur þeir sem það valdi ekki. Það er ekki skrítið þegar stjórnmálin verða sífellt líkari farsa eftir Darió Fó. Sumir hafa sagt að nú þurfi ekki að skrifa Skaupið því það sé að skrifa sig sjálft, við séum ekki að horfa á það heldur séum við að leika í því og því sé leikstýrt af Andskotanum sjálfum.Lífsreynda konan Hvernig getur svona leiðinlegt mannlíf þrifist á svona fallegu landi?“ spurði mjög lífsreynd og gáfuð kona fyrir nokkru. Ég varð að játa að ég vissi það ekki. Ég skil það ekki alveg. Ég velti því oft fyrir mér hvað sé eiginlega að á Íslandi. Við virðumst hafa allt til alls. Hér er nóg pláss. Ísland er fallegt land sem er fullt af auðæfum. Við þurfum ekki að hita okkur vatn því það vellur sjálfkrafa upp úr jörðinni. Flestir hafa aðgang að upphitaðri sundlaug í göngufæri. Lífsgæði á Íslandi hafa lengi verið góð og lífsskilyrði. Hér eru tækifæri fyrir framtakssamt fólk. Íslenskt samfélag er gott, borið saman við mörg önnur. Við erum friðsamt fólk og byggjum samfélag okkar á aldagamalli menningu, þótt ekki séu alltaf allir sammála um hver aðalatriði hennar séu og hvert eðli hennar sé. Við erum dugleg og vinnusöm og yfirleitt úrræðagóð og kraftmikil og fljót að aðlagast breytingum og takast á við válynd veður í ýmsum myndum. Við erum fljót að tileinka okkur tækninýjungar. Almenn menntun er góð, hvort sem hún er formleg eða ekki, enda eru spurningakeppnir ein helsta þjóðaríþróttin. Íslendingar eru ekki bara gríðarlega sveigjanlegir í einhverri óblíðustu náttúru á byggðu bóli heldur yfirleitt hamingjusamir. Það er einhvern veginn í eðli okkar að vera bjartsýn og bíða eftir að veðrinu sloti. Við tökum gestum vel og þykjum vinsamleg og gestrisin.Kurteis og snyrtileg erum við ósigrandi En hvað er þá eiginlega að? Ég held að okkur vanti hæfni í samskiptum. Það er hinn veiki hlekkur. Það vantar áhersluna á samskipti í samfélaginu, í menningunni, í skólunum. Okkur vantar siðmenntun. Við höfum meira að segja daðrað við andstæðuna; frekju, stærilæti og yfirgang. Freki kallinn hefur verið okkur fyrirmynd í svo mörgu og við svo oft borið óttablandna virðingu fyrir honum og treyst honum. Þegar kemur að þessum hluta þá erum við frumstætt samfélag. Það vantar meiri siðfágun í kúltúrinn. Það vantar minni virðingu fyrir einræðum og meiri virðingu fyrir samræðum. Nútíminn og framtíðin krefjast sífellt meiri hæfni í mannlegum samskiptum og umgengni. Nú er ekki lengur nóg að vera sniðugur, duglegur og flinkur í sínu fagi. Maður þarf líka að geta talað við fólk og unnið með öðrum og miðlað upplýsingum. Það vantar eiginlega kúltíveraða þjóðarvakningu. Ég held að við getum alveg gert þetta með glans vegna þess að við erum svo kraftmikil og fljót að aðlagast. Með þessu gætum við skapað betra samfélag og náð meiri árangri. Þjónusta á Íslandi hefur til dæmis breyst mikið á minni ævi. Þegar ég var að alast upp þá var anti-þjónusta talin sjálfsögð og dónaskapur eðlilegur hluti af viðskiptum. Það þarf að tala meira um þetta. Fyrirtæki taka í gegn samskiptamálin hjá sér og búa til þjónustustefnur. Og verða betri og hæfari fyrirtæki fyrir vikið og gengur yfirleitt betur. Getum við ekki gert eitthvað svipað sem þjóð? Við erum bara rétt rúmlega 300.000 manneskjur. Og allir á Facebook. Við þurfum að finna ráð til að koma þjóðarsálinni í lágmarksjafnvægi og fyrst þá getum við byrjað að tala saman og finna raunhæfar lausnir á öllum þessum flóknu vandamálum. Vel menntuð, dugleg, jákvæð, kurteis og snyrtileg erum við ósigrandi. Og alveg sama hvernig viðrar. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Jón Gnarr Mest lesið Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Rangfeðranir Sævar Þór Jónsson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland á í miklum vanda. Við stöndum frammi fyrir flóknum úrlausnarefnum; gjaldeyrishöftum, heilbrigðismálum, kaupmætti og fátækt, húsnæðisvanda og svo öllu fjármálakerfinu. Ferðamennska hefur aukist og nú er svo komið að yfir milljón ferðamenn koma til landsins á hverju ári. Ferðamenn eru helsta uppspretta gjaldeyristekna okkar. En um leið verða til ný vandamál – því vandi fylgir vegsemd hverri. Um leið og við fögnum skemmtilegum gestum þá höfum við áhyggjur af átroðningi og hugsanlegum skemmdum á vinsælum stöðum. Og engir eru alveg sammála um allt. Fólk greinir á um hvernig eigi að leysa þessi mál öll. Og eins og alltaf þá hafa þeir yfirleitt bestu ráðin sem hafa minnstu aðkomuna. Á Íslandi er heil stétt sérfræðinga sem hefur enga reynslu af því sem þeir eru sérfræðingar í. Margir eru með masterspróf í því að reka búð en hafa ekki einu sinni unnið í sjoppu. Ofan á þetta koma svo fjölmiðlar sem leggja sitt huglæga mat á hvað sé fréttnæmt og hvernig eigi að segja frá því. Yfirvegun fer þverrandi og meira er um upphrópanir og alhæfingar. Margir eru að verða ansi tjúllaðir og þjóðin klofnar í mismunandi hreyfingar og undirhópa. Traust fer minnkandi. Fólk vill helst ekki að þeir sem það valdi til að stjórna landinu stjórni því, heldur þeir sem það valdi ekki. Það er ekki skrítið þegar stjórnmálin verða sífellt líkari farsa eftir Darió Fó. Sumir hafa sagt að nú þurfi ekki að skrifa Skaupið því það sé að skrifa sig sjálft, við séum ekki að horfa á það heldur séum við að leika í því og því sé leikstýrt af Andskotanum sjálfum.Lífsreynda konan Hvernig getur svona leiðinlegt mannlíf þrifist á svona fallegu landi?“ spurði mjög lífsreynd og gáfuð kona fyrir nokkru. Ég varð að játa að ég vissi það ekki. Ég skil það ekki alveg. Ég velti því oft fyrir mér hvað sé eiginlega að á Íslandi. Við virðumst hafa allt til alls. Hér er nóg pláss. Ísland er fallegt land sem er fullt af auðæfum. Við þurfum ekki að hita okkur vatn því það vellur sjálfkrafa upp úr jörðinni. Flestir hafa aðgang að upphitaðri sundlaug í göngufæri. Lífsgæði á Íslandi hafa lengi verið góð og lífsskilyrði. Hér eru tækifæri fyrir framtakssamt fólk. Íslenskt samfélag er gott, borið saman við mörg önnur. Við erum friðsamt fólk og byggjum samfélag okkar á aldagamalli menningu, þótt ekki séu alltaf allir sammála um hver aðalatriði hennar séu og hvert eðli hennar sé. Við erum dugleg og vinnusöm og yfirleitt úrræðagóð og kraftmikil og fljót að aðlagast breytingum og takast á við válynd veður í ýmsum myndum. Við erum fljót að tileinka okkur tækninýjungar. Almenn menntun er góð, hvort sem hún er formleg eða ekki, enda eru spurningakeppnir ein helsta þjóðaríþróttin. Íslendingar eru ekki bara gríðarlega sveigjanlegir í einhverri óblíðustu náttúru á byggðu bóli heldur yfirleitt hamingjusamir. Það er einhvern veginn í eðli okkar að vera bjartsýn og bíða eftir að veðrinu sloti. Við tökum gestum vel og þykjum vinsamleg og gestrisin.Kurteis og snyrtileg erum við ósigrandi En hvað er þá eiginlega að? Ég held að okkur vanti hæfni í samskiptum. Það er hinn veiki hlekkur. Það vantar áhersluna á samskipti í samfélaginu, í menningunni, í skólunum. Okkur vantar siðmenntun. Við höfum meira að segja daðrað við andstæðuna; frekju, stærilæti og yfirgang. Freki kallinn hefur verið okkur fyrirmynd í svo mörgu og við svo oft borið óttablandna virðingu fyrir honum og treyst honum. Þegar kemur að þessum hluta þá erum við frumstætt samfélag. Það vantar meiri siðfágun í kúltúrinn. Það vantar minni virðingu fyrir einræðum og meiri virðingu fyrir samræðum. Nútíminn og framtíðin krefjast sífellt meiri hæfni í mannlegum samskiptum og umgengni. Nú er ekki lengur nóg að vera sniðugur, duglegur og flinkur í sínu fagi. Maður þarf líka að geta talað við fólk og unnið með öðrum og miðlað upplýsingum. Það vantar eiginlega kúltíveraða þjóðarvakningu. Ég held að við getum alveg gert þetta með glans vegna þess að við erum svo kraftmikil og fljót að aðlagast. Með þessu gætum við skapað betra samfélag og náð meiri árangri. Þjónusta á Íslandi hefur til dæmis breyst mikið á minni ævi. Þegar ég var að alast upp þá var anti-þjónusta talin sjálfsögð og dónaskapur eðlilegur hluti af viðskiptum. Það þarf að tala meira um þetta. Fyrirtæki taka í gegn samskiptamálin hjá sér og búa til þjónustustefnur. Og verða betri og hæfari fyrirtæki fyrir vikið og gengur yfirleitt betur. Getum við ekki gert eitthvað svipað sem þjóð? Við erum bara rétt rúmlega 300.000 manneskjur. Og allir á Facebook. Við þurfum að finna ráð til að koma þjóðarsálinni í lágmarksjafnvægi og fyrst þá getum við byrjað að tala saman og finna raunhæfar lausnir á öllum þessum flóknu vandamálum. Vel menntuð, dugleg, jákvæð, kurteis og snyrtileg erum við ósigrandi. Og alveg sama hvernig viðrar.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun