Þórir benti á að þessi aldurssamsetning Indverja væri sérstaklega áhugaverð út frá stafrænni þróun. Það skapaði tækifæri. „Það eru 1,2 milljarðar í landinu, 400 milljónir sem eru með tekjur á borð við okkur, 243 milljónir eru í netsambandi og fer hraðvaxandi,“ sagði Þórir. Þá benti hann á að 106 milljónir manna væru virkar á samfélagsmiðlunum, 886 milljónir með farsíma og 92 milljónir virkar á samfélagsmiðlunum í gegnum farsíma. „Árið 2020 verður meðalaldurinn 29 ár. Þetta er þumalputtakynslóðin sem kaupir og gerir allt í gegnum síma og tölvur, hvort sem það eru öpp, vörur eða þjónusta,“ sagði Þórir.
Þekktustu leikjaframleiðendur hér á landi hafa áttað sig á möguleikum á markaðssetningu á Indlandi. Gunnar Hólmsteinn Guðmundsson, rekstrarstjóri hjá Plain Vanilla, segir að fyrirtækið hafi byrjað sína markaðssetningu erlendis í Bandaríkjunum. En síðastliðið sumar hafi verið opnað fyrir fimm önnur tungumál fyrir þessa útrás. Það er þýska, franska, spænska, brasilíska og portúgalska. „Á þessum tíma varð Quiz-up mjög vinsælt á Indlandi,“ segir Gunnar Hólmsteinn. Fyrst hafi fyrirtækið ekki áttað sig á ástæðunum fyrir þessum vinsældum. En síðar hafi þeir áttað sig á því að enskukunnátta á Indlandi væri mikil. „Við töluðum við vini okkar hjá Facebook og Twitter. Og þeir sáu mjög svipaða hluti gerast,“ segir Gunnar Hólmsteinn. Notkun hafi verið mjög mikil á þessum mörkuðum.

Eldar Ástþórsson, upplýsingafulltrúi CCP, segir að fyrirtækið hafi fylgst vel með framvindunni undanfarið, einkum með möguleika á markaðssetningu nýrra leikja í huga.
„Við höfum um langt skeið verið með áskrifendur eða viðskiptavini fyrir Eve Online á Indlandi. En það hefur ekki verið í neinum fjölda sem hefur kallað á frekari markaðssókn,“ segir Eldar. Gerðar hafi verið ýmsar tilraunir í gegnum tíðina með Eve Online-leikinn á því svæði en það hafi ekki skilað þeim árangri að það réttlætti að farið yrði í frekari sókn þar. „En við höfum verið mjög öflugir í Kína og sömuleiðis einbeitt okkur að Japansmarkaði fyrir Eve Online,“ segir Eldar.