Fótbolti

Enginn skoraði fleiri mörk en Ronaldo á árinu 2015

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo.
Cristiano Ronaldo. Vísir/Getty
Cristiano Ronaldo varð markahæsti knattspyrnumaður heims þriðja árið í röð en þessi portúgalska markavél var í fullum gangi á árinu 2015.

Cristiano Ronaldo skoraði 57 mörk í 57 opinberum leikjum á árinu 2015 með bæði spænska liðinu Real Madrid sem og portúgalska landsliðinu. 54 markanna komu í búningi Real Madrid en þrjú voru í leik með landsliðinu.

Cristiano Ronaldo hefur skorað 25 mörk í 23 leikjum það sem af er þessu tímabili þar af 11 mörk í 6 leikjum í Meistaradeildinni. Mörkin hans 14 í spænsku deildinni í vetur duga samt bara í annað sætið með Neymar því Barcelona-maðurinn Luis Suárez hefur skorað marki meira.

Ronaldo var einnig efstur á þessum lista þegar hann skoraði 61 mark árið 2014 og 69 mörk árið 2013. Lionel Messi setti "heimsmet" með því að skorað 90 mörk árið 2012.

Cristiano Ronaldo skoraði tvennu í síðustu tveimur leikjum ársins, fyrst 2 mörk í 10-2 sigri á Rayo Vallecano 20. desember og svo 2 mörk í 3-1 sigri á Real Sociedad 30. desember.

Það var þó mikill munur á árangri Real Madrid milli ár. Liðið vann ekki titil á árinu 2015 en vann fjóra titla árið á undan þar á meðal sinn tíunda sigur frá upphafi í Evrópukeppni meistaraliða.

Lionel Messi er í 2. sæti á listanum í ár með 52 mörk í 61 leik en hann missti talsvert úr vegna meiðsla. Messi og félagar hans í Barcelona áttu hinsvegar magnað ár og unnu fimm af sex titlum í boði, þar á meðal deildina, Meistaradeildina og heimsmeistarakeppni félagsliða.

Pólverjinn Robert Lewandowski varð í 3. sæti með 49 mörk í 58 leikjum, einu marki á undan Úrúgvæmanninum Luis Suárez (48 mörk í 57 leikjum) sem endaði árið með því raða inn mörkum í öllum leikjum.

Flest mörk í opinberum leikjum á árinu 2015:

57 - Cristiano Ronaldo

52 - Lionel Messi

49 - Robert Lewandowski

48 - Luis Suárez

46 - Pierre-Emerick Aubameyang

46 - Zlatan Ibrahimovic

45 - Neymar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×