Blaðamenn EHF á Evrópumótinu í handbolta í Póllandi hafa sett saman í spá um það hvaða þjóðir enda í tíu efstu sætunum á Evrópumótinu sem hefst á morgun.
Það eru þeir Vladislav Brindzak, Björn Pazen, Eric Willemsen, Peter Bruun, Paul Bray og Nemanja Savic sem
spá fyrir heimasíðu keppninnar.
Íslenska landsliðinu er spáð áttunda sætinu í spánni en Norðmenn, mótherjar Íslands í fyrsta leik liðsins, er spáð tíunda sætinu.
Spámennirnir segja að íslenska landsliðinu takist alltaf að finna óslípaðan demant í sínum röðum á þessum stórmótum og þeir búist við það hjálpi liðinu til að vinna á móti meiðslum lykilmanna eins og þeirra hjá Alexander Petersson.
Í greininni er einnig talað um hinn eldfljóta Guðjón Val Sigurðsson sem og besta leikmann liðsins, Aron Pálmarsson, en mikið verður á herðum Arons í sóknarleik íslenska liðsins á þessu Evrópumóti.
Íslenska liðið getur komið á óvart á þessu móti samkvæmt palladómum spekinga EHF og nú er bara að vona að Ísland finni enn á ný demant í hópnum og að litla Ísland slái einu sinni enn í gegn á stórmóti.
Spekingarnir eru á því að Spánn verði Evrópumeistari, Frakkar taki silfrið og gestgjafar Pólverjar fái bronsið. Guðmundur Guðmundsson og lærisveinar hans í danska landsliðinu komast í undanúrslitin samkvæmt þessari spá en missa af verðlaunum og enda í fjórða sæti.
Strákarnir hans Dags Sigurðssonar í þýska landsliðinu komst ekki í hóp tíu bestu þjóðanna samkvæmt spánni en Þjóðverjar eru í mjög erfiðum riðli með Spáni, Svíþjóð og Slóveníu en allar þær þjóðir enda meðal níu efstu í þessari spá.
Spá heimasíðu Evrópumótsins: Evrópumeistari: Spánn
2. sæti: Frakkland
3. sæti: Pólland
4. sæti: Danmörk
5. sæti: Króatía
6. sæti: Slóvenía
7. sæti: Ungverjaland
8. sæti: Ísland
9. sæti: Svíþjóð
10. sæti: Noregur