Samið hafði verið um valréttinn árið 2007 en hann var ótímabundinn og óvíst var hvenær og hvort af honum yrði, að sögn Steinþórs. Samningurinn færir hluthöfum Visa Europe mikinn fjárhagslegan ávinning.
„Þetta var viljayfirlýsing milli Visa Inc. og Visa Europe um að menn myndu setjast niður ef annar aðilinn myndi óska eftir slíku. Við reyndum að kynna okkur þetta eins vel og við gátum. Við vorum í sambandi við forstjóra Visa Europe og við gerðum okkur grein fyrir þessum samningi,“ segir Steinþór.
Er þetta eitthvað sem þið hefðuð þurft að taka tillit til við sölu hlutabréfa í Borgun, til dæmis með því að setja ákvæði inn í kaupsamninginn um að bankinn myndi njóta fjárhagslegs ávinnings af samstarfi eða yfirtöku Visa Inc. á Visa Europe, ef af því yrði? „Við töldum ekki að Borgun myndi fá neinar greiðslur, þeir höfðu ekki verið með Visa-viðskipti. Þau höfðu verið í gegnum Visa Ísland sem var hjá Valitor. Við gættum okkar hagsmuna með þessum hætti þegar við seldum hlut okkar í Valitor til Arion banka,“ segir Steinþór en hann er þar að vísa til sérstaks ákvæðis í kaupsamningi milli Arion banka og Landsbanka um hlutabréfin í Valitor.

Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins segir Borgunarmálið hneyksli og þeir sem beri ábyrgð hljóta að þurfa að axla hana, jafnvel þó allt hafi verið gert í góðri trú. Þá segir hann að kaupendur að hlut Landsbankans í Borgun eigi alvarlega að íhuga hvort þeir taki þá afstöðu að láta Landsbankann, seljandann, njóta hluta af þeim ávinningi sem fylgir kaupum Visa Inc. á Visa Europe.

Fjögur hundruð hafa boðað komu sína á mótmæli fyrir utan aðalútibú Landsbankans á þriðjudag. Rúmlega níu hundruð til viðbótar hafa lýst yfir áhuga á að mæta. Boðað var til mótmælanna á Facebook í gær undir yfirskriftinni „Lokað vegna spillingar“. Í mótmælaboðinu er vísað til umdeildrar sölu Landsbankans á Borgun árið 2014 og spurt hvort það sé trúverðugt að bankinn hafi selt eignarhlutinn í Borgun án þess að hafa hugmyndir um áætlanir fyrirtækisins um útrás.