Afleikur ársins Þorbjörn Þórðarson skrifar 22. janúar 2016 07:30 Það væri algjör afleikur hjá ríkisstjórninni að selja eignarhlut í Landsbankanum núna og það myndi ganga gegn hagsmunum eigandans, íslenska ríkisins og þar með íslenskra skattgreiðenda. Í lögum um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og fjárlögum ársins 2016 liggur fyrir heimild til að hefja sölumeðferð á allt að 28,2 prósenta eignarhlut í Landsbankanum. Ég hef áður fært fyrir því rök á þessum vettvangi að það sé óskynsamlegt fyrir ríkissjóð að selja Landsbankann miðað við núverandi aðstæður á fjármálamarkaði. Látum þau rök liggja á milli hluta að sinni í ljósi þess að löggjafinn hefur heimilað sölu á þessum tiltekna eignarhlut. En er skynsamlegt fyrir ríkissjóð að selja hlut í Landsbankanum á þessum tímapunkti? Í nýrri stöðuskýrslu um Landsbankann mælir Bankasýsla ríkisins með sölu en þegar lesið er milli línanna sést að Bankasýslan mælir í raun gegn því að bankinn verði seldur á þessum tímapunkti og skýrsluhöfundar sjá ástæðu til að telja ástæðurnar sérstaklega upp með svofelldum orðum:„Í fyrsta lagi er verðmat á evrópskum viðskiptabönkum enn fyrir neðan sögulegt meðaltal. Í öðrulagi hafa innlendir fjárfestar ekki þurft að verðmeta hlutabréf í innlánsstofnunum í langan tíma. Þannig má búast við að seljendur á fyrsta eignarhlut í viðskiptabanka fái lægra söluverð en það sem telja mætti eðlilegt í skráningum umfram gangvirði sambærilegra félaga. Í þriðja lagi búa viðskiptabankarnir enn við svigrúm til arðgreiðslna og kaupa á eigin bréfum sem gæti verið hagstæðari leið til endurheimtu fjárframlaga eigenda þeirra. Í fjórða lagi er Landsbankinn að innleiða langtímaáætlanir sem grundvallast á nýrri stefnu til 2020, eins og kom fram á aðalfundi bankans þann 18. mars 2015. Gera stjórnendur bankans ráð fyrir því að sú innleiðing gæti haft jákvæð áhrif á arðsemi grunnrekstrar bankans á nokkrum árum.“ Tilvitnun lýkur. Ríkissjóður gæti fengið mun meira út úr eignarhaldi sínu á Landsbankanum með því að selja eignir út úr bankanum og greiða sér arð áður en kemur að sölu bankans. Fram kemur í skýrslu Bankasýslunnar að með sölu aðeins brota af eignum bankans gæti ríkissjóður greitt sér 63 milljarða króna í arð á þessu ári í krafti eignarhalds á Landsbankanum en það er næstum því jafn há upphæð og vonir standa til að fáist fyrir þriðjungshlut í bankanum. Þá verður að hafa hugfast að á síðustu þremur árum hefur Landsbankinn greitt ríkissjóði samtals alls 54 milljarða króna í arð. Hér er ekki mælt með því að eigið fé bankans verði lækkað of mikið enda er gert ráð fyrir sífellt hærri eiginfjárkröfum til banka og hér má nefna að eiginfjárhlutfallið verður 10,5 prósent í nýju regluverki á grundvelli Basel III staðalsins sem innleitt verður á árunum 2018-2019 en lágmarkskröfur FME til íslensku bankanna hefur verið 16 prósent. Annað sem mælir gegn sölu á hlut í Landsbankanum á þessum tímapunkti er sú staðreynd að lífeyrissjóðirnir eru í viðræðum við slitastjórn Kaupþings banka um kaup á Arion banka og þegar hafa verið haldnir fjölmargir fundir um málið. Ríkissjóður hefur mikinn hag af því að gott verð fáist fyrir 87 prósenta hlut slitabús Kaupþings í Arion banka því hluti stöðugleikaframlags Kaupþings til ríkissjóðs er söluandvirðið sem fæst fyrir Arion banka. Það eru engir innlendir fjárfestar sem hafa bolmagn til að borga ásættanlegt verð fyrir Landsbankann aðrir en lífeyrissjóðir. Hversu gáfulegt er þá að fara af stað með sölu á 28,2 prósenta hlut í Landsbankanum á sama tíma? Sérstök ástæða er til að staldra við þessi orð sem koma fram í stöðuskýrslu Bankasýslunnar: „…þrátt fyrir vöxt og stærð lífeyrissjóðanna að þá er fjárhagslegt bolmagn þeirra til fjárfestingar í eigin fé innlánsstofnana að meðaltali lægra en það hefur verið undanfarin ár.“Á sama tíma og lífeyrissjóðirnir eru að kaupa Arion banka er geta þeirra til að kaupa banka talsvert lakari en fyrir nokkrum árum síðan. Af þessum sökum er augljóst að það er mjög óskynsamlegt að selja Landsbankann núna þegar þeir fjárfestar sem helst geta greitt ásættanlegt verð fyrir bankann eru í miðjum klíðum að kaupa annað stórt fjármálafyrirtæki á sama tíma og geta þeirra til fjárfestingar í slíkum fyrirtækjum er mun minni en áður. Þá verður að hafa hugfast að hlutabréfavísitölur um allan heim hafa verið að hrynja á síðustu mánuðum og markaðir eru í lækkunarferli sem ekki sér fyrir endann á. Það er mikil ranghugmynd hjá fólki að halda að við séum eitthvað nálægt þeirri stöðu sem við vorum í fyrir banka- og gjaldeyrishrunið. Ísland er ennþá inni í gjaldeyrishöftum, þótt unnið sé eftir áætlun um afnám þeirra og það er mikil óvissa framundan, bæði hér á landi og erlendis. Þessi grein mun ef til vill ekki hafa nein áhrif á einbeittan vilja ríkisstjórnarinnar til að selja Landsbankann enda birtist tilkynning á heimasíðu Ríkiskaupa í fyrradag þar sem óskað er eftir ráðgjöfum við einkavæðingu bankans. Það skiptir engu máli þótt formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hafi mælt gegn þessum áformum en hann er sennilega sá þingmaður sem kynnt sér hefur málið hvað best. Það skiptir engu máli þótt verið sé að selja Arion banka til lífeyrissjóðanna á sama tíma og óvissan á fjármálamörkuðum virðist ekki skipta neinu máli. Það á bara að keyra þetta í gegn. Menn ætla bara að berja höfðinu við steininn. Erfitt er að sjá að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks styðjist við hagsmuni almennings sem vegvísi í þeim leiðangri. Eftir hörmuleg mistök við einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans um og eftir síðustu aldarmót, áfalli sem við höfum ekki enn jafnað okkur á, hefur íslensk þjóð ekki efni á því að fara annan hring á hringekju heimskunnar við einkavæðingu bankanna. Að þessu sögðu er ekkert sem mælir með því að selja hlut í Landsbankanum á þessum tímapunkti. Það myndi ganga gegn hagsmunum eigandans og þar með almannahagsmunum.Höfundur er lögfræðingur og fréttamaður Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Þorbjörn Þórðarson Mest lesið Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun
Það væri algjör afleikur hjá ríkisstjórninni að selja eignarhlut í Landsbankanum núna og það myndi ganga gegn hagsmunum eigandans, íslenska ríkisins og þar með íslenskra skattgreiðenda. Í lögum um sölumeðferð á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum og fjárlögum ársins 2016 liggur fyrir heimild til að hefja sölumeðferð á allt að 28,2 prósenta eignarhlut í Landsbankanum. Ég hef áður fært fyrir því rök á þessum vettvangi að það sé óskynsamlegt fyrir ríkissjóð að selja Landsbankann miðað við núverandi aðstæður á fjármálamarkaði. Látum þau rök liggja á milli hluta að sinni í ljósi þess að löggjafinn hefur heimilað sölu á þessum tiltekna eignarhlut. En er skynsamlegt fyrir ríkissjóð að selja hlut í Landsbankanum á þessum tímapunkti? Í nýrri stöðuskýrslu um Landsbankann mælir Bankasýsla ríkisins með sölu en þegar lesið er milli línanna sést að Bankasýslan mælir í raun gegn því að bankinn verði seldur á þessum tímapunkti og skýrsluhöfundar sjá ástæðu til að telja ástæðurnar sérstaklega upp með svofelldum orðum:„Í fyrsta lagi er verðmat á evrópskum viðskiptabönkum enn fyrir neðan sögulegt meðaltal. Í öðrulagi hafa innlendir fjárfestar ekki þurft að verðmeta hlutabréf í innlánsstofnunum í langan tíma. Þannig má búast við að seljendur á fyrsta eignarhlut í viðskiptabanka fái lægra söluverð en það sem telja mætti eðlilegt í skráningum umfram gangvirði sambærilegra félaga. Í þriðja lagi búa viðskiptabankarnir enn við svigrúm til arðgreiðslna og kaupa á eigin bréfum sem gæti verið hagstæðari leið til endurheimtu fjárframlaga eigenda þeirra. Í fjórða lagi er Landsbankinn að innleiða langtímaáætlanir sem grundvallast á nýrri stefnu til 2020, eins og kom fram á aðalfundi bankans þann 18. mars 2015. Gera stjórnendur bankans ráð fyrir því að sú innleiðing gæti haft jákvæð áhrif á arðsemi grunnrekstrar bankans á nokkrum árum.“ Tilvitnun lýkur. Ríkissjóður gæti fengið mun meira út úr eignarhaldi sínu á Landsbankanum með því að selja eignir út úr bankanum og greiða sér arð áður en kemur að sölu bankans. Fram kemur í skýrslu Bankasýslunnar að með sölu aðeins brota af eignum bankans gæti ríkissjóður greitt sér 63 milljarða króna í arð á þessu ári í krafti eignarhalds á Landsbankanum en það er næstum því jafn há upphæð og vonir standa til að fáist fyrir þriðjungshlut í bankanum. Þá verður að hafa hugfast að á síðustu þremur árum hefur Landsbankinn greitt ríkissjóði samtals alls 54 milljarða króna í arð. Hér er ekki mælt með því að eigið fé bankans verði lækkað of mikið enda er gert ráð fyrir sífellt hærri eiginfjárkröfum til banka og hér má nefna að eiginfjárhlutfallið verður 10,5 prósent í nýju regluverki á grundvelli Basel III staðalsins sem innleitt verður á árunum 2018-2019 en lágmarkskröfur FME til íslensku bankanna hefur verið 16 prósent. Annað sem mælir gegn sölu á hlut í Landsbankanum á þessum tímapunkti er sú staðreynd að lífeyrissjóðirnir eru í viðræðum við slitastjórn Kaupþings banka um kaup á Arion banka og þegar hafa verið haldnir fjölmargir fundir um málið. Ríkissjóður hefur mikinn hag af því að gott verð fáist fyrir 87 prósenta hlut slitabús Kaupþings í Arion banka því hluti stöðugleikaframlags Kaupþings til ríkissjóðs er söluandvirðið sem fæst fyrir Arion banka. Það eru engir innlendir fjárfestar sem hafa bolmagn til að borga ásættanlegt verð fyrir Landsbankann aðrir en lífeyrissjóðir. Hversu gáfulegt er þá að fara af stað með sölu á 28,2 prósenta hlut í Landsbankanum á sama tíma? Sérstök ástæða er til að staldra við þessi orð sem koma fram í stöðuskýrslu Bankasýslunnar: „…þrátt fyrir vöxt og stærð lífeyrissjóðanna að þá er fjárhagslegt bolmagn þeirra til fjárfestingar í eigin fé innlánsstofnana að meðaltali lægra en það hefur verið undanfarin ár.“Á sama tíma og lífeyrissjóðirnir eru að kaupa Arion banka er geta þeirra til að kaupa banka talsvert lakari en fyrir nokkrum árum síðan. Af þessum sökum er augljóst að það er mjög óskynsamlegt að selja Landsbankann núna þegar þeir fjárfestar sem helst geta greitt ásættanlegt verð fyrir bankann eru í miðjum klíðum að kaupa annað stórt fjármálafyrirtæki á sama tíma og geta þeirra til fjárfestingar í slíkum fyrirtækjum er mun minni en áður. Þá verður að hafa hugfast að hlutabréfavísitölur um allan heim hafa verið að hrynja á síðustu mánuðum og markaðir eru í lækkunarferli sem ekki sér fyrir endann á. Það er mikil ranghugmynd hjá fólki að halda að við séum eitthvað nálægt þeirri stöðu sem við vorum í fyrir banka- og gjaldeyrishrunið. Ísland er ennþá inni í gjaldeyrishöftum, þótt unnið sé eftir áætlun um afnám þeirra og það er mikil óvissa framundan, bæði hér á landi og erlendis. Þessi grein mun ef til vill ekki hafa nein áhrif á einbeittan vilja ríkisstjórnarinnar til að selja Landsbankann enda birtist tilkynning á heimasíðu Ríkiskaupa í fyrradag þar sem óskað er eftir ráðgjöfum við einkavæðingu bankans. Það skiptir engu máli þótt formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis hafi mælt gegn þessum áformum en hann er sennilega sá þingmaður sem kynnt sér hefur málið hvað best. Það skiptir engu máli þótt verið sé að selja Arion banka til lífeyrissjóðanna á sama tíma og óvissan á fjármálamörkuðum virðist ekki skipta neinu máli. Það á bara að keyra þetta í gegn. Menn ætla bara að berja höfðinu við steininn. Erfitt er að sjá að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks styðjist við hagsmuni almennings sem vegvísi í þeim leiðangri. Eftir hörmuleg mistök við einkavæðingu Landsbankans og Búnaðarbankans um og eftir síðustu aldarmót, áfalli sem við höfum ekki enn jafnað okkur á, hefur íslensk þjóð ekki efni á því að fara annan hring á hringekju heimskunnar við einkavæðingu bankanna. Að þessu sögðu er ekkert sem mælir með því að selja hlut í Landsbankanum á þessum tímapunkti. Það myndi ganga gegn hagsmunum eigandans og þar með almannahagsmunum.Höfundur er lögfræðingur og fréttamaður
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun