Edison og fíllinn Stefán Pálsson skrifar 31. janúar 2016 11:00 Edison tók upp á sína arma uppfinningu sem bandarískur tannlæknir hafði kynnt til sögunnar: rafmagnsstólinn. Á vefsvæðinu YouTube má finna óhemjumörg myndbönd. Eitt það skrítnasta er rúmlega mínútulangur kvikmyndabútur frá árinu 1903. Myndin er óskýr, en í upphafi sést maður leiða fram fíl sem horfir vankaður í kringum sig. Nokkrum sekúndum síðar sjást reykjarbólstrar stíga upp og skepnan fellur til jarðar. Því næst gengur maður að hreyfingarlausum fílnum og sannreynir að hann sé dauður. Áhugasamir geta horft á myndskeiðið hér. Þar má líka lesa um tildrög þessa skringilega atburðar. Fíllinn sem þarna var drepinn hét Topsy og var sirkusfíll í skemmtigarði á Coney Island í New York. Topsy hafði orðið sirkusstarfsmanni að bana og því var ákveðið að aflífa fílinn. Fengu stjórnendur fjölleikahússins fyrst þá furðulegu hugmynd að útbúa ógnarstóran gálga til að hengja dýrið. Var sú aftökuaðferð raunar notuð á annan sirkusfíl, Stóru-Maríu, rúmum áratug síðar og vakti mikla hneykslun. En áður en sirkusstjórinn á Coney Island fékk ráðrúm til að útbúa gálgann og auglýsa opinbera aftöku sakafílsins, hafði Thomas Edison samband. Hann bauðst til að leysa vandann og skapa í leiðinni mikið sjónarspil. Fíllinn yrði drepinn með raflosti og atburðurinn festur á filmu. Það var ekki almennur áhugi uppfinningamannsins á dýraníði sem rak hann áfram. Ástæðurnar voru að öllu leyti viðskiptalegar.Töframaður eða klækjarefur? Thomas Edison er einhver dáðasta persóna mannkynssögunnar. Í lifanda lífi var hann heimsfrægur, kallaður „töframaðurinn“ og ótrúlegustu sögur gengu af uppfinningum hans. Ótalmargar ævisögur Edisons hafa verið skrifaðar og eiga þær flestar sameiginlegt að leggja áherslu á erfið uppvaxtarár hetjunnar, bága frammistöðu hans í skóla (Edison er almennt talinn hafa verið lesblindur) og hvernig uppfinningar hans hafi orðið til með blöndu af hugljómun og ódrepandi elju. Þessi ímynd gerði sitt til að festa í sessi staðalmyndina af uppfinningamanninum sem praktískum vinnuþjarki sem stjórnaðist af brjóstviti frekar en bókviti, öfugt við sprenglærðu vísindamennina sem skortir allt jarðsamband og eru ófærir um að nota vísdóm sinn til að skapa neitt hagnýtt. Veruleikinn var talsvert flóknari. Tæknisagnfræðingar hafa bent á að í raun var Edison miklu betur að sér í raunvísindum en hann vildi vera láta og í aðstoðarmannaliði hans mátti finna snjalla vísindamenn. Og þótt Edison segði í sífellu sögur af því hvernig hversdagslegar tilviljanir hefðu getið af sér hugmyndir að snjöllum uppfinningum, var raunin sú að hann sat langdvölum á einkaleyfisskrifstofum og kynnti sér hugmyndir annarra og leitaði leiða til að betrumbæta þær eða gera að sínum. Að sumu leyti má segja að einkaleyfalöggjöfin hafi ýtt uppfinningamönnum út í að þykjast hafa unnið afrek sín einir og óstuddir. Á meðan það þótti sjálfsagt í vísindum að vitna til rannsókna forveranna, þurftu uppfinningamennirnir að fela slóð sína en eiga ella á hættu bakreikninga og málaferli. Sá sem fékk einkaleyfi á uppfinningu hafði svo ekki nema fáein ár til að sitja einn að henni, áður en pétur og páll gátu apað eftir. Það var þessi tímapressa sem að lokum leiddi til hins skringilega fíladráps.Verði ljós! Thomas Edison bjó til fyrstu hagkvæmu rafmagnsljósaperuna um áramótin 1879-80. Til að hagnast á henni þurfti Edison að hafa hraðar hendur og koma upp heildstæðu tæknikerfi: rafstöð, raflínum, lömpum og ljósaperum til að þjónusta viðskiptavini sína. Árið 1882 hóf hann svo starfsemi fyrstu rafveitunnar, í Perlustræti í fjármálakerfi New York. Perlustrætisstöðin var jafnstraumsstöð. (Fyrir þau sem farin eru að ryðga í grunnskólaeðlisfræðinni eru til tvær gerðir rafstraums: jafnstraumur og riðstraumur.) Jafnstraumur er auðveldari í meðförum, en berst ekki um langan veg. Riðstraumur hefur hins vegar þá eiginleika að spennu hans má breyta og þannig flytja langar vegalengdir með háspennu, en lækka svo aftur niður áður en til viðskiptavinarins er komið. Edison gerði sér vitaskuld grein fyrir þessum kostum riðstraumsins, en þar sem fyrstu kúnnar hans voru vellrík fyrirtæki og einstaklingar í miðju stórborga skipti það litlu máli – rafstöðvarnar mátti setja niður miðsvæðis og fleyta rjómann af markaðnum í nágrenni þeirra. Auk þess voru ýmis vandamál við gerð riðstraumsrafala það flókin að ýmsir töldu að beislun riðstraumsins væri jafnvel fræðilega ómöguleg. Edison hefur því naumast verið skemmt árið 1884, þegar til hans kom ungur maður í atvinnuleit. Serbinn Nikola Tesla var snjall en sérlundaður eðlisfræðingur sem taldi sig hafa fundið lausnina á hvernig smíða mætti öruggan riðstraumsrafal. Hann eyddi aleigunni í farmiða til Bandaríkjanna með það að markmiði að hitta Edison, sýna honum hugmyndir sínar og komast í vinnu. Tesla var þess fullviss að Edison léti sannfærast og myndi óðara veðja á riðstrauminn. Hann varð þó fyrir gríðarlegum vonbrigðum. Edison samþykkti þegar að ráða unga manninn í vinnu, enda meðmæli hans frábær. Hins vegar sýndi hann tillögunum um riðstraumsrafalinn engan áhuga. Tesla varð miður sín yfir að meistarinn annaðhvort skildi ekki hugmyndirnar eða gæfi sér ekki tíma til að skoða þær í þaula.Blóðug samkeppni Líklegra er þó að Edison hafi strax áttað sig á að vangaveltur Tesla gengju upp, en skynjað þær sem ógn frekar en tækifæri. Fyrirtæki Edisons voru um allar koppagrundir að bjóðast til að koma upp jafnstraumsrafveitum sem þau kynntu sem bestu og nýjustu fáanlegu tækni. Ómögulegt var að skipta um hest í miðri á. Tesla var frábær vísinda- og uppfinningamaður, en lítill kaupsýslumaður og hefði tæplega skilið fjármálarök af þessum toga. Hans köllun var að breiða út riðstrauminn og því sagði hann fljótlega skilið við Edison-samsteypuna. Þess í stað komst hann í kynni við annan mann, sem vó rækilega upp kunnátuleysi hans á sviði viðskipta: George Westinghouse. Westinghouse hafði sjálfur verið kornungur uppfinningamaður. Frá tvítugsaldri hafði hann fundið upp ýmiss konar búnað í tengslum við rekstur járnbrauta, sem gerði hann vellríkan. Hann átti miklar eignir bæði í járnbrautakerfum og gasstöðvum, en það var einmitt í gegnum gasiðnaðinn sem hann fór að veita athygli nýjum, mögulegum samkeppnisaðila: rafmagninu. Tesla tókst að sannfæra Westinghouse um að hugmyndir sínar væru framkvæmanlegar. Gróðavonin var geypileg. Allur heimurinn hafði heyrt um Perlustrætisstöð Edisons og kallaði eftir rafmagnsljósum, en hvað mætti þá segja um ennþá betra tæknikerfi? Með riðstraumi gætu rafveitur þjónað miklu stærri svæðum, jafnvel heilu borgunum í staðinn fyrir fáeinar götur í miðbæjum. Stöðvar Edisons þurftu að vera miðsvæðis, á dýrum lóðum og brenndu kolum. Með riðstraumi gæti rafstöðin sjálf verið í ódýru úthverfi, kolabrennslan þyrfti ekki að trufla viðskiptavinina og aðrir orkugjafar kæmu til álita. Þannig mætti virkja kraftmikla fossa og flytja raforkuna um langan veg til borganna þar sem hún væri nýtt til lýsingar eða iðnaðar.Öllum ráðum beitt Vöxtur Westinghouse-fyrirtækisins var ör. Svo ör að innan skamms hætti Edison að standa á sama. Við tók hatrammt „straumastríð“ eða „Battle of Currents“ eins og einhver dramatískur tæknisagnfræðingurinn nefndi það síðar. Tesla og Westinghouse héldu á lofti fjölbreytilegri nýtingarmöguleikum síns kerfis, en Edison skákaði í skjóli frægðar sinnar: nafn hans var í huga almennings gæðastimpill á uppfinningum. Jafnframt brá Edison á það ráð að draga upp þá mynd af tækni andstæðingsins að hún væri varhugaverð og raunar stórhættuleg. Að sönnu er háspenntur riðstraumur miklu hættulegri mönnum og dýrum en lágspenntur jafnstraumur. Þetta hugðist Edison nýta sér út í ystu æsar, svo að riðstraumur yrði í huga almennings banvænn skaðræðisgripur. Í því skyni tók Edison upp á sína arma uppfinningu sem bandarískur tannlæknir hafði kynnt til sögunnar nokkrum árum fyrr: rafmagnsstólinn. Stjórnvöld í New York voru mjög tvístígandi um hvort verjandi væri að taka þetta nýja aftökutæki í notkun. Edison hvatti þau til dáða og bar vitni í réttarhöldum þar sem tekist var á um hvort slík aftökuaðferð teldist mannúðleg. Westinghouse, sem skildi hvað klukkan sló, greiddi hins vegar laun lögfræðingsins sem reyndi að fá rafmagnsstólnum hnekkt. Allt kom fyrir ekki. Rafmagnsstóllinn fékk blessun dómstóla og Edison þreyttist ekki á að benda á að manndrápstækið notaðist við riðstraum. Eftir að kvikmyndatæknin varð útbreiddari reyndi Edison að nýta hana í ófrægingarherferð sinni gegn riðstraumnum. Hann lét sviðsetja aftökur þekktra glæpamanna í rafmagnsstólnum, kvikmyndaði og sýndi í bíóhúsum sínum um gjörvöll Bandaríkin. Og drápið á Topsy í sirkusnum á Coney Island var enn einn liðurinn í einu subbulegasta áróðursstríði tæknisögunnar. Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið „Lífið væri svo miklu leiðinlegra ef ég ætti ekki bróður með Downs“ Lífið Fötlunin ekki stærsta áfallið heldur veikindin sem fylgdu Lífið Kenndi sjálfum sér um í tuttugu ár Lífið Grundvallarmisskilnings gæti um þaksvalir á Íslandi Lífið Ryan Reynolds og Taylor Swift hafi beitt hann þrýstingi Lífið Ragna Sigurðardóttir á von á barni Lífið Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Lífið Troðfullt hús og standandi lófaklapp Menning Þetta eru keppendur Söngvakeppninnar 2025 Lífið Fréttatía vikunnar: Bólfélagar, fjársvik og flóð Lífið Fleiri fréttir Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira
Á vefsvæðinu YouTube má finna óhemjumörg myndbönd. Eitt það skrítnasta er rúmlega mínútulangur kvikmyndabútur frá árinu 1903. Myndin er óskýr, en í upphafi sést maður leiða fram fíl sem horfir vankaður í kringum sig. Nokkrum sekúndum síðar sjást reykjarbólstrar stíga upp og skepnan fellur til jarðar. Því næst gengur maður að hreyfingarlausum fílnum og sannreynir að hann sé dauður. Áhugasamir geta horft á myndskeiðið hér. Þar má líka lesa um tildrög þessa skringilega atburðar. Fíllinn sem þarna var drepinn hét Topsy og var sirkusfíll í skemmtigarði á Coney Island í New York. Topsy hafði orðið sirkusstarfsmanni að bana og því var ákveðið að aflífa fílinn. Fengu stjórnendur fjölleikahússins fyrst þá furðulegu hugmynd að útbúa ógnarstóran gálga til að hengja dýrið. Var sú aftökuaðferð raunar notuð á annan sirkusfíl, Stóru-Maríu, rúmum áratug síðar og vakti mikla hneykslun. En áður en sirkusstjórinn á Coney Island fékk ráðrúm til að útbúa gálgann og auglýsa opinbera aftöku sakafílsins, hafði Thomas Edison samband. Hann bauðst til að leysa vandann og skapa í leiðinni mikið sjónarspil. Fíllinn yrði drepinn með raflosti og atburðurinn festur á filmu. Það var ekki almennur áhugi uppfinningamannsins á dýraníði sem rak hann áfram. Ástæðurnar voru að öllu leyti viðskiptalegar.Töframaður eða klækjarefur? Thomas Edison er einhver dáðasta persóna mannkynssögunnar. Í lifanda lífi var hann heimsfrægur, kallaður „töframaðurinn“ og ótrúlegustu sögur gengu af uppfinningum hans. Ótalmargar ævisögur Edisons hafa verið skrifaðar og eiga þær flestar sameiginlegt að leggja áherslu á erfið uppvaxtarár hetjunnar, bága frammistöðu hans í skóla (Edison er almennt talinn hafa verið lesblindur) og hvernig uppfinningar hans hafi orðið til með blöndu af hugljómun og ódrepandi elju. Þessi ímynd gerði sitt til að festa í sessi staðalmyndina af uppfinningamanninum sem praktískum vinnuþjarki sem stjórnaðist af brjóstviti frekar en bókviti, öfugt við sprenglærðu vísindamennina sem skortir allt jarðsamband og eru ófærir um að nota vísdóm sinn til að skapa neitt hagnýtt. Veruleikinn var talsvert flóknari. Tæknisagnfræðingar hafa bent á að í raun var Edison miklu betur að sér í raunvísindum en hann vildi vera láta og í aðstoðarmannaliði hans mátti finna snjalla vísindamenn. Og þótt Edison segði í sífellu sögur af því hvernig hversdagslegar tilviljanir hefðu getið af sér hugmyndir að snjöllum uppfinningum, var raunin sú að hann sat langdvölum á einkaleyfisskrifstofum og kynnti sér hugmyndir annarra og leitaði leiða til að betrumbæta þær eða gera að sínum. Að sumu leyti má segja að einkaleyfalöggjöfin hafi ýtt uppfinningamönnum út í að þykjast hafa unnið afrek sín einir og óstuddir. Á meðan það þótti sjálfsagt í vísindum að vitna til rannsókna forveranna, þurftu uppfinningamennirnir að fela slóð sína en eiga ella á hættu bakreikninga og málaferli. Sá sem fékk einkaleyfi á uppfinningu hafði svo ekki nema fáein ár til að sitja einn að henni, áður en pétur og páll gátu apað eftir. Það var þessi tímapressa sem að lokum leiddi til hins skringilega fíladráps.Verði ljós! Thomas Edison bjó til fyrstu hagkvæmu rafmagnsljósaperuna um áramótin 1879-80. Til að hagnast á henni þurfti Edison að hafa hraðar hendur og koma upp heildstæðu tæknikerfi: rafstöð, raflínum, lömpum og ljósaperum til að þjónusta viðskiptavini sína. Árið 1882 hóf hann svo starfsemi fyrstu rafveitunnar, í Perlustræti í fjármálakerfi New York. Perlustrætisstöðin var jafnstraumsstöð. (Fyrir þau sem farin eru að ryðga í grunnskólaeðlisfræðinni eru til tvær gerðir rafstraums: jafnstraumur og riðstraumur.) Jafnstraumur er auðveldari í meðförum, en berst ekki um langan veg. Riðstraumur hefur hins vegar þá eiginleika að spennu hans má breyta og þannig flytja langar vegalengdir með háspennu, en lækka svo aftur niður áður en til viðskiptavinarins er komið. Edison gerði sér vitaskuld grein fyrir þessum kostum riðstraumsins, en þar sem fyrstu kúnnar hans voru vellrík fyrirtæki og einstaklingar í miðju stórborga skipti það litlu máli – rafstöðvarnar mátti setja niður miðsvæðis og fleyta rjómann af markaðnum í nágrenni þeirra. Auk þess voru ýmis vandamál við gerð riðstraumsrafala það flókin að ýmsir töldu að beislun riðstraumsins væri jafnvel fræðilega ómöguleg. Edison hefur því naumast verið skemmt árið 1884, þegar til hans kom ungur maður í atvinnuleit. Serbinn Nikola Tesla var snjall en sérlundaður eðlisfræðingur sem taldi sig hafa fundið lausnina á hvernig smíða mætti öruggan riðstraumsrafal. Hann eyddi aleigunni í farmiða til Bandaríkjanna með það að markmiði að hitta Edison, sýna honum hugmyndir sínar og komast í vinnu. Tesla var þess fullviss að Edison léti sannfærast og myndi óðara veðja á riðstrauminn. Hann varð þó fyrir gríðarlegum vonbrigðum. Edison samþykkti þegar að ráða unga manninn í vinnu, enda meðmæli hans frábær. Hins vegar sýndi hann tillögunum um riðstraumsrafalinn engan áhuga. Tesla varð miður sín yfir að meistarinn annaðhvort skildi ekki hugmyndirnar eða gæfi sér ekki tíma til að skoða þær í þaula.Blóðug samkeppni Líklegra er þó að Edison hafi strax áttað sig á að vangaveltur Tesla gengju upp, en skynjað þær sem ógn frekar en tækifæri. Fyrirtæki Edisons voru um allar koppagrundir að bjóðast til að koma upp jafnstraumsrafveitum sem þau kynntu sem bestu og nýjustu fáanlegu tækni. Ómögulegt var að skipta um hest í miðri á. Tesla var frábær vísinda- og uppfinningamaður, en lítill kaupsýslumaður og hefði tæplega skilið fjármálarök af þessum toga. Hans köllun var að breiða út riðstrauminn og því sagði hann fljótlega skilið við Edison-samsteypuna. Þess í stað komst hann í kynni við annan mann, sem vó rækilega upp kunnátuleysi hans á sviði viðskipta: George Westinghouse. Westinghouse hafði sjálfur verið kornungur uppfinningamaður. Frá tvítugsaldri hafði hann fundið upp ýmiss konar búnað í tengslum við rekstur járnbrauta, sem gerði hann vellríkan. Hann átti miklar eignir bæði í járnbrautakerfum og gasstöðvum, en það var einmitt í gegnum gasiðnaðinn sem hann fór að veita athygli nýjum, mögulegum samkeppnisaðila: rafmagninu. Tesla tókst að sannfæra Westinghouse um að hugmyndir sínar væru framkvæmanlegar. Gróðavonin var geypileg. Allur heimurinn hafði heyrt um Perlustrætisstöð Edisons og kallaði eftir rafmagnsljósum, en hvað mætti þá segja um ennþá betra tæknikerfi? Með riðstraumi gætu rafveitur þjónað miklu stærri svæðum, jafnvel heilu borgunum í staðinn fyrir fáeinar götur í miðbæjum. Stöðvar Edisons þurftu að vera miðsvæðis, á dýrum lóðum og brenndu kolum. Með riðstraumi gæti rafstöðin sjálf verið í ódýru úthverfi, kolabrennslan þyrfti ekki að trufla viðskiptavinina og aðrir orkugjafar kæmu til álita. Þannig mætti virkja kraftmikla fossa og flytja raforkuna um langan veg til borganna þar sem hún væri nýtt til lýsingar eða iðnaðar.Öllum ráðum beitt Vöxtur Westinghouse-fyrirtækisins var ör. Svo ör að innan skamms hætti Edison að standa á sama. Við tók hatrammt „straumastríð“ eða „Battle of Currents“ eins og einhver dramatískur tæknisagnfræðingurinn nefndi það síðar. Tesla og Westinghouse héldu á lofti fjölbreytilegri nýtingarmöguleikum síns kerfis, en Edison skákaði í skjóli frægðar sinnar: nafn hans var í huga almennings gæðastimpill á uppfinningum. Jafnframt brá Edison á það ráð að draga upp þá mynd af tækni andstæðingsins að hún væri varhugaverð og raunar stórhættuleg. Að sönnu er háspenntur riðstraumur miklu hættulegri mönnum og dýrum en lágspenntur jafnstraumur. Þetta hugðist Edison nýta sér út í ystu æsar, svo að riðstraumur yrði í huga almennings banvænn skaðræðisgripur. Í því skyni tók Edison upp á sína arma uppfinningu sem bandarískur tannlæknir hafði kynnt til sögunnar nokkrum árum fyrr: rafmagnsstólinn. Stjórnvöld í New York voru mjög tvístígandi um hvort verjandi væri að taka þetta nýja aftökutæki í notkun. Edison hvatti þau til dáða og bar vitni í réttarhöldum þar sem tekist var á um hvort slík aftökuaðferð teldist mannúðleg. Westinghouse, sem skildi hvað klukkan sló, greiddi hins vegar laun lögfræðingsins sem reyndi að fá rafmagnsstólnum hnekkt. Allt kom fyrir ekki. Rafmagnsstóllinn fékk blessun dómstóla og Edison þreyttist ekki á að benda á að manndrápstækið notaðist við riðstraum. Eftir að kvikmyndatæknin varð útbreiddari reyndi Edison að nýta hana í ófrægingarherferð sinni gegn riðstraumnum. Hann lét sviðsetja aftökur þekktra glæpamanna í rafmagnsstólnum, kvikmyndaði og sýndi í bíóhúsum sínum um gjörvöll Bandaríkin. Og drápið á Topsy í sirkusnum á Coney Island var enn einn liðurinn í einu subbulegasta áróðursstríði tæknisögunnar.
Menning Saga til næsta bæjar Mest lesið „Lífið væri svo miklu leiðinlegra ef ég ætti ekki bróður með Downs“ Lífið Fötlunin ekki stærsta áfallið heldur veikindin sem fylgdu Lífið Kenndi sjálfum sér um í tuttugu ár Lífið Grundvallarmisskilnings gæti um þaksvalir á Íslandi Lífið Ryan Reynolds og Taylor Swift hafi beitt hann þrýstingi Lífið Ragna Sigurðardóttir á von á barni Lífið Erling og Sigríður selja húsið eftir átján ár Lífið Troðfullt hús og standandi lófaklapp Menning Þetta eru keppendur Söngvakeppninnar 2025 Lífið Fréttatía vikunnar: Bólfélagar, fjársvik og flóð Lífið Fleiri fréttir Troðfullt hús og standandi lófaklapp „Persónan Elmar er alls ekki Helgi“ Skrumskæld mynd af Helga Skúla í Vigdísarþáttum Ætlar aldrei aftur til Tenerife: „Þetta er hræðilegur staður“ Metsölulisti bókaútgefenda sé „ómarktækur“ Þetta voru mest seldu bækur ársins 2024 Af hverju er þessi kona á öllum auglýsingaskiltum? Jólahaldið allt í rugl þegar frumsýning er annan í jólum Áreittar í sundi fyrir það að vera hinsegin Arnaldur tók sér frí frá glæpum en ekki toppnum Jói Pé og Króli skrifa söngleik Féll í myndlist en fann sig sem myndlistarmaður Bestu vinkonur sameinast í listinni Bjarni og Sigurður verði ekki myrtir í bók Borgarleikhúsið setur upp Moulin Rouge 250 sýningar af Elly: „Án hennar væri Íslandssagan öðruvísi“ Heitustu stjörnur listarinnar saman í Ásmundarsal Snorri skein skært í hátíðarbrókinni Engin sé uppskeran ef kartöflurnar eru ekki settar niður Verður ýmist í leyfi eða hlutastarfi á listamannalaunum Þessi fá listamannalaun 2025 Gleðilegir gestir í hátíðarskapi á safninu „Spurning um að fara að sækja réttu kokteilboðin“ Geir og Arnaldur í fangbrögðum á toppnum Sjá meira