Félagið Aceway, skráð á Panama og í eigu Róbert Wessman er á lista sem birtist í fréttaskýringaþættinum Uppdrag Granskning sem sýndur var í sænska ríkissjónvarpinu í gærkvöldi og er unnin upp úr Panamskjölunum svokölluðu. DV greindi fyrst frá listanum.
Í skriflegu svari segir Halldór Kristmannsson, talsmaður Alvogen, þar sem Róbert er nú forstjóri, að Aceway hafi verið fjárfestingafélag stofnað á Panama í samstarfi við Landsbankann í Lúxemborg.
Sjá einnig: Eggert, Finnur og Róbert í minnispunktum Jóhannesar Kr.
„Tilgangur félagsins var að halda utan um eign Róberts í lyfjafyrirtækinu Actavis og uppsetning félagsins var samkvæmt ráðgjöf Landsbankans á þeim tíma. Actavis var á þessum tíma skráð í Kauphöll Íslands og eign Róberts í gegnum áðurnefnt félag því ávallt opinber í tilkynningum til Kauphallar.“
Í svarinu segir að til skoðunar hafi var á þeim tíma að skrá Actavis í erlenda kauphöll og því hafi verið talið heppilegast að Aceway væri sett upp með þessum hætti.
Þá er lögð áhersla á að Róbert hafi ávallt gefið upp allar sínar til skattyfirvalda. „Róbert Wessman hefur ávallt tilkynnt um eign sína í Aceway til skattyfirvalda á Íslandi og tekjur félagsins hafa verið skattlagðar sem launatekjur hans en ekki sem fjármagnstekjur hér á landi, jafnvel þó skráning þess væri erlendis,“ segir í svarinu.
