Annað Íslendingaliðið sem var í eldlínunni í Svíþjóð í dag vann og hitt gerði jafntefli, en alls voru fimm Íslendingar í eldlínunni.
Malmö vann góðan 3-0 sigur á Gefle, en þetta var sjötti sigur Malmö í níu leikjum.
Staðan var markalaus í hálfleik, en Guillermo Molins kom Malmö yfir á 48. mínútu. Molins var aftur á ferðinni tíu mínútum síðar þegar hann tvöfaldaði forystuna.
Vladimir Rodic skoraði svo þriðja mark Malmö á 76. mínútu og lokatölur 3-0 sigur Malmö.
Þeir eru nú jafnir Norrköping á toppi deildarinnar, en Norrköping á leik til góða. Gefle er í fimmtánda sæti með fimm stig.
Kári Árnason og Viðar Örn Kjartansson spiluðu báðir allan leikinn fyrir Malmö.
Annað Íslendingalið, Hammarby, gerði 1-1 jafntefli við Kalmar. Marcus Antonsson kom Kalmar yfir, en Erik Israelsson jafnaði metin fyrir Hammarby í síðari hálfleik.
Hammarby er með tíu stig eftir fyrstu níu leikina og sitja þeir í tólfta sætinu. Kalmar er í því þrettánda.
Ögmundur Kristinsson og Birkir Már Sævarsson spiluðu báðir allan leikinn, en Arnór Smárason kom inná sem varamaður síðustu níu mínúturnar.
