Norsku meistararnir í Rosenborg unnu sigur á Start, 2-0, á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld en allir þrír Íslendingarnir í herbúðum meistaranna voru í byrjunarliðinu.
Hólmar Örn stóð vaktina í vörninni, Guðmundur Þórarinsson byrjaði á miðjunni og þá fékk Matthías Vilhjálmsson að spila sem framherji en hann hefur leyst ýmsar stöður síðan hann gekk í raðir Rosenborg í fyrra.
Ísfirðingurinn þakkaði traustið með því að skora bæði mörk Rosenborg gegn sínum gömlu félögum en í byrjunarliði Start var Blikinn Guðmundur Kristjánsson.
Matthías kom meisturunum í 1-0 með skallamarki á 80. mínútu eftir fyrirgjöf frá bakverðinum Jonasi Svensson og hann innsiglaði svo sigurinn með öðru skallamarki eftir hornspyrnu á 88. mínútu.
Rosenborg er á toppi deildarinnar eftir sigurinn í kvöld með 25 stig, fjórum stigum meira en Molde. Liðið er aðeins búið að tapa einum leik.
Þrjú önnur Íslendingalið voru í eldlínunni í kvöld. Aron Sigurðarson og félagar í Tromsö gerðu markalaust jafntefli við Sogndal á útivelli, Álasund tapaði 1-0 fyrir Sarpsborg á útivelli og þá tapaði Viking einnig 1-0 fyrir Stabæk á útivelli.
Adam Örn Arnarson var í byrjunarliði Álasunds en Aron Elís Þrándarson byrjaði á bekknum. Aron Sigurðarson var í byrjunarliði Tromsö og Björn Daníel Sverrisson var á sínum stað í byrjunarliði Viking Stavanger.
Viking er efst þessara Íslendingaliða með 16 stig í áttunda sæti, Tromsö er í tólfta sæti með tíu stig og Álasund er aðeins með sjö stig í 14. sæti af 16 liðum.
