Fótbolti

Stórsigur hjá Elmari og félögum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Elmar var valinn í EM-hópinn.
Elmar var valinn í EM-hópinn. vísir/getty
Theodór Elmar Bjarnason var í byrjunarliði AGF sem vann stórsigur, 5-1, á Esbjerg í dönsku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

AGF og Esbjerg eru í 10. og 11. sæti deildarinnar. Þau þurfa þó ekki að hafa áhyggjur af falldraugnum því aðeins eitt lið fellur úr deildinni í ár. Á næsta tímabili verður liðum í úrvalsdeildinni fjölgað úr 12 í 14.

Staðan í hálfleik í leik kvöldsins var 1-0, AGF í vil, en í seinni hálfleik komu mörkin á færibandi. Elmar var tekinn af velli á 79. mínútu en þá var staðan 4-1, AGF í vil.

Elmar, sem er á sínu fyrsta tímabili hjá AGF, var valinn í lokahóp íslenska landsliðsins sem fer á EM í Frakklandi í næsta mánuði.

Guðlaugur Victor Pálsson var í leikmannahópi Esbjerg í fyrsta sinn síðan í september á síðasta ári en hann er að komast á ferðina á ný eftir erfið meiðsli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×