Fótbolti

Ólafur Kristjánsson tekur við Randers

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Kristjánsson er tekinn við Randers.
Ólafur Kristjánsson er tekinn við Randers. vísir/vilhelm
Ólafur Kristjánsson hefur verið ráðinn þjálfari danska úrvalsdeildarliðsins Randers en þetta kemur fram á heimasíðu liðsins í dag. Hann tekur við starfinu af Colin Todd.

Ólafur, sem síðast þjálfaði Nordsjælland í Danmörku, skrifaði undir tveggja ára samning við Randers sem er í sjötta sæti dönsku úrvalsdeildarinnar með 43 stig þegar tvær umferðir eru eftir.

„Ég hlakka mikið til að komast aftur af stað og þjálfa danskt lið,“ segir Ólafur á heimasíðu Randers en hann var látinn fara frá Nordsjælland í byrjun árs þegar nýir eigendur tóku við.

„Ég hef alltaf borið mikla virðingu fyrir Randers og því starfi sem hefur verið unnið hjá félaginu og ég hlakka til að halda því starfi áfram,“ segir Ólafur.

Ólafur, sem er 48 ára gamall, gerði Breiðablik að bikarmeistara árið 2009 sem var fyrsti stóri titill karlaliðsins í sögu þess og þá vann hann Íslandsmeistaratitilinn ári síðar.

Ólafur mun stýra sinni fyrstu æfingu 20. júní þegar liðið kemur saman til undirbúnings fyrir næsta tímabil í dönsku úrvalsdeildinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×