Fleiri bætast nú í hóp þeirra sem vilja verja leikarann Johnny Depp fyrir ásökunum um heimilisofbeldi en Amber Heard eiginkona hans hefur sakað hann um að hafa gengið í skrokk sér fyrir rúmri viku síðan. Í kjölfarið fékk hún nálgunarbann á leikarann í réttarsal í Los Angeles.
Nú fullyrða tveir lífverðir leikarans sem voru á staðnum þegar rifrildi þeirra átti sér stað að leikkonan hafi reynt að láta sem hann væri að berja sig á meðan hann var í sex metra fjarlægð frá henni. Lífverðirnir ruddust inn þegar þeir heyrðu hana öskra; „hættu að slá mig“ en segja að leikarinn hafi verið í öðru herbergi þegar atvikið átti sér stað.
Þeir staðfesta einnig þann vitnisburð lögreglunnar að engir áverkar hafi verið í andliti Amber þegar Depp á að hafa yfirgefið heimilið.
Réðst ítrekað á Johnny og kastaði í hann flöskum
Lífverðirnir fullyrða að þeir hafi oft séð leikkonuna missa stjórn á skapi sínu og ráðast á leikarann í þá 15 mánuði sem þau bjuggu saman sem hjón. Þá hafi þeir í nokkrum tilfellum þurft að rífa hana af leikaranum og segja hana hafa hent í hann flöskum.
Lögreglan kom að heimili þeirra síðar um kvöldið en þá minntist Amber ekkert á ofbeldi auk þess sem engir áverkar voru sjáanlegir á andliti hennar. Amber Heard skilaði inn myndum sem sýndu greinilega áverka á andliti hennar þegar hún sótti um nálgunarbannið en hún fullyrðir að Depp hafi kastað í sig farsíma.
Margir af nánustu lífsförunautum Johnny Depp hafa komið honum til varnar síðustu daga en þar má nefna barnsmóður hans Vanessu Paradis og dóttur þeirra.
Fréttastofa TMZ greindi frá.