Golf

Flottur árangur hjá Ólafíu Þórunni í Tékklandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafía Þórunn lék á fimm höggum undir pari í Tékklandi.
Ólafía Þórunn lék á fimm höggum undir pari í Tékklandi. mynd/gsí
Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, kylfingur úr GR, hefur lokið leik á Tipsport Golf Masters sem fór fram á Park Pilsen vellinum í Tékklandi. Ólafía lék lokahringinn á 68 höggum eða -3 og samtals lék hún hringina þrjá á -5 (71-69-68).

Þetta er besti árangur Ólafíu á sterkustu atvinnumótaröð kvenna í Evrópu og aðeins annað mótið sem hún tekur þátt í. Ólafía var í 23. sæti fyrir lokahringinn og endaði að lokum í 16. sæti.

Eins og áður segir er þetta annað mótið á ferlinum hjá Ólafíu Þórunni á Ladies European Tour. Hún endaði í 106. sæti á +12 á fyrsta mótinu sem fram fór í Marokkó.

Næsta mót á Ladies European Tour fer fram í Aberdeen í Skotlandi dagana 22.-24. júlí og er Ólafía í 24. sæti á biðlista fyrir það mót.

Það gæti breyst mikið eftir árangurinn í Tékklandi enda fær hún mikið af stigum á styrkleikalistann með góðum árangri á þessu móti.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×