Fótbolti

Eiður Smári: Íslenskir stuðningsmenn komnir á hærra plan

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Eiður Smári ræðir við fjölmiðlamenn í Annecy í dag.
Eiður Smári ræðir við fjölmiðlamenn í Annecy í dag. vísir/vilhelm
„Ég einbeitti mér bara að boltanum,“ sagði Eiður Smári Guðjohnsen um það sem hann hugsaði þegar hann sá boltann koma að sér eftir að Gylfi Þór Sigurðsson skaut í varnarvegginn í uppbótartíma gegn Ungverjalandi í gær.

Ísland var þá nýbúið að fá á sig jöfnunarmarkið í leiknum og fékk Eiður Smári gullið tækifæri til að tryggja Íslandi sigur er hann fékk frákastið eftir að aukaspyrna Gylfa Þórs hafnaði í veggnum. Hann sagðist hafa hugsað um færið þegar hann lá á koddanum í gærkvöldi.

„Það kom alveg inn og maður hugsaði til þess að boltinn hefði mátt enda í netinu á einhvern hátt. Ég hugsa þó ekki um hvort ég hefði getað gert eitthvað annað. Markið er fyrir framan mann og þetta þarf að gerast hratt. ÉG smellhitti boltann en ég hefði viljað sjá hann hrökkva af einhverjum og fara inn, fremur en framhjá.“

„Það voru það margir að koma út á móti mér. Ég vildi bara hitta hann vel,“ sagði hann í samtali við Vísi en Eiður Smári ræddi við fjölmiðlamenn í morgun eftir að liðið var komið aftur til Annecy.

„Svo var hann svo fljótur að flauta leikinn af að þetta var bara búið. Það var varla tími til að svekkja sig á akkurat þessu augnabliki. Heilt yfir vorum við svekktir af því að við vorum búnir að halda út svo lengi í leiknum,“ sagði hann.

Það fór vitanlega ekki framhjá honum hversu mikið það var fagnað í stúkunni þegar hann kom inn á sem varamaðru í leiknum og fékk að spila sínar fyrstu mínútur á stórmóti.

„Ég held að ég og allir í liðinu erum endalaust þakklátir fyrir þann stuðning sem við höfum fengið í mótinu. Það má segja að ekki bara Ísland sem landslið sem landslið sé komið á hærra plan heldur íslenskir stuðningsmenn líka,“ sagði hann.

„Það eru engu líkt að fylgjast með stemningunni fyrir leik, á meðan honum stendur og eftir hann. Þetta er einfaldlega allt öðruvísi en þetta var áður. Við finnum fyrir því og lifum okkur jafn mikið inn í þetta og aðdáendur gera. Vonandi eigum við eftir að njóta fleirri góðra stunda saman.“

Hann segir að hann hafi verið að einbeita sér of mikið að leiknum til að vera hrærður út af móttökunum.

„En auðvitað tók ég eftir fagnaðarlátunum og er ég virkilega þakklátur fyrir það.“

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).



Tengdar fréttir

Einkunnir gegn Ungverjalandi: Ragnar bestur

Ísland gerði grátlegt jafntefli við Ungverjalandi í annari umferð F-riðils, en liði skildu jöfn 1-1 á Stade Vélodrome leikvanginum í Marseille. Ísland er því með tvö stig eftir fyrstu tvo leikina á Evrópumótinu í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×