Fótbolti

Kolbeinn: Okkur líður eins og við höfum tapað leiknum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kolbeinn í leiknum í kvöld.
Kolbeinn í leiknum í kvöld. Vísir/EPA
Kolbeinn Sigþórsson var vitanlega afar svekktur með að hafa misst niður 1-0 forystu gegn Ungverjalandi á síðustu stundu í Marseille í dag.

Kolbeinn var valinn maður leiksins af Knattspyrnusambandi Evrópu og mætti því á blaðamannafund eftir leikinn.

„Við vorum fimm mínútum frá þessu - að ná að halda þessu út í endann og sigla þessu í höfn. En við lágum líklega of aftarlega í lok leiksins þegar við fengum markið í andlitið,“ sagði Kolbeinn.

„Líklega hefðum við átt að gera betur með því að vinna seinni boltann þegar við unnum skallaeinvígin. Við hefðum átt að halda ró okkar betur. Við vorum ekki nógu rólegir þegar við fengum boltann.“

Hann var spurður af ungverskum blaðamanni hvað álit hans væri á vítaspyrnudómnum en Kolbeinn sagðist ekki hafa séð það sjálfur. „En ég spurði í hálfleik og strákarnir sögðu að þetta hafi verið víti.“

Kolbeinn segir að vonbrigðin hafi verið mikil en að það sé enn metnaður fyrir því hjá íslenska liðinu að komast áfram í 16-liða úrslitin.

„Ef ég segi út frá liðinu þá vildum við þrjú stig. Það sást á vonbrigðum strákanna í búningsklefanna sem voru mikil. Okkur líður eins og við höfum tapað. Þetta var tæpt í þetta skiptið en vonandi getum við sótt þrjú stig í síðasta leiknum.“

Kolbeinn sagði enn fremur að það væri gjörólíkt að bera saman þetta 1-1 jafntefli við 1-1 jafnteflisleikinn gegn Portúgal

„Mér líður eins og eftir tapleik. En við erum enn ósigraðir á mótinu. Getum því enn verið jákvæðir og við förum með fullt sjálfstraust í síðasta leikinn. Verður risastór leikur og vonandi fáum við þrjú stig og förum áfram.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×