Áfram Ísland Þórlindur Kjartansson skrifar 17. júní 2016 07:00 Ég veit ekki hvort ég var jafnsveittur og Gylfi eftir leikinn gegn Portúgal (þið munið—þennan sem við unnum 1–1)—en það munaði varla miklu því ég var gjörsamlega búinn á því, bæði líkamlega og andlega, þegar loksins var flautað til leiksloka. Mér leið eins og ég væri nýkominn úr IKEA-ferð með fjölskyldunni. Fyrirfram átti ég ekki endilega von á því að leikurinn næði slíkum heljartökum á mér. Stundin varð stærri en ég bjóst við og tilfinningarnar miklu sterkari. Ég var gagntekinn af þjóðerniskennd, stolti og metnaði. Og ég hlakka til þess að leyfa þessum ofsa að ná tökum á mér aftur á morgun í leiknum gegn Ungverjum. Blind ástríða er máttug tilfinning og í raun væri fáránlegt að horfa á leikina með einhverju öðru hugarfari. Fallegur fótbolti Hingað til höfum við Íslendingar nefnilega þurft að láta okkur nægja að velja okkur lið til þess að „halda með“ á stórmótum í knattspyrnu. Sumir velja að halda með löndum sem þeir hafa bundist einhverjum tilfinningaböndum vegna langrar eða skammrar dvalar í landinu; sumir hafa haldið með landi vegna þess að tilteknir leikmenn eru í sérlegu uppáhaldi eða búningarnir flottir og fjölmargir Íslendingar hafa fylgst spenntir með stórmótum án þess að halda með sérstöku liði—þeir halda bara með „góðum fótbolta“. En nú er öllum á Íslandi skítsama um „góðan fótbolta“. Það þarf ekki flókinn rökstuðning til þess að halda með sinni eigin þjóð. Tilfinningarnar ráða algjörlega. Fallegur fótbolti er sá fótbolti sem skilar okkur árangri. Ef við þurfum að pakka í vörn og láta skotin dynja á okkur og hreinsa svo frá í örvæntingu—þá er það fallegur fótbolti. Ef við náum upp léttleikandi spili alla leið frá eigin markteig og fram í sókn—þá er það líka fallegur fótbolti. Það mun enginn nenna að horfa á leiki Íslands með manni sem ætlar sér að gagnrýna nokkurn skapaðan hlut í leik liðsins, eða horfa á leikinn af einhverri sanngirni. Þjóðargersemin Gummi Ben orðaði þetta fullkomlega í lýsingu sinni frá St. Etienne: „Jú, hann var kannski aðeins rangstæður. En ekki svo rangstæður að það hefði þurft að dæma á það.“Tilfinningarnar ráða Þetta er málið. Þjóðin er sameinuð. Ef einhver Íslendingur dirfðist að segja að Ronaldo hafi hugsanlega haft eitthvað til síns máls, eða að þessi Pepe sé nú bara ágætur, eða að það hafi sennilega verið rétt hjá dómaranum að dæma aðra aukaspyrnu í leikslok (af því að gengur kannski ekki að leyfa mönnum að klára bara leikinn með því að verja með höndunum)—þá mun sá hinn sami þurfa að sætta sig við að horfa á næstu leiki aleinn. Hann getur þá talað af hlutleysi við veggina heima hjá sér. Við viljum ekki heyra það. Við viljum ekki rök. Við viljum ekki réttlæti. Við viljum ekki sanngirni. Við viljum sigur! Íþróttir eru vettvangur þar sem það er í góðu lagi að láta hinar frumstæðustu tilfinningar ráða algjörlega för. Þá slökkvum við á öllum æðri stöðvum heilans—og leyfum okkur að trúa fjölmörgum hlutum samtímis sem eru algjörlega órökréttir og stangast jafnvel á innbyrðis. Það er stór hluti af gleðinni og stemningunni að vera ekki að flækja hlutina neitt. En þessar sömu tilfinningar geta verið varhugaverðar þegar þær skjóta upp kollinum annars staðar. Í pólitík eru þær til að mynda stórhættulegar—eins og sést vel á framboði Donalds Trump í Bandaríkjunum. Hann byggir kosningabaráttu sína á hamslausri persónudýrkun og blindri ástríðu. Stuðningsmenn hans velja að trúa því sem hann segir jafnvel þótt þar stangist hver hluturinn á við annan; og flest líka við raunveruleikann. Þeir halda með sínum manni eins og við höldum með íslenska landsliðinu.Engin kraftaverk Og það þarf að passa sig á því að láta ekki ástríðuna yfir velgengni landsliðsins smitast út fyrir leikvanginn sjálfan. Við erum auðvitað rífandi stolt af okkar mönnum og njótum þeirrar alþjóðlegu athygli og aðdáunar sem árangur íslenska landsliðsins hefur vakið. Manni hlýnar um hjartarætur að sjá samstöðuna sem Færeyingar, Danir og Norðmenn hafa sýnt Íslendingum á þessu móti. Í þessu, eins og ýmsu öðru, má taka sér til fyrirmyndar íþróttafólkið sjálft. Hvort sem um er að ræða íslenska knattspyrnumenn eða konur, körfuboltafólkið okkar og handboltamennina—þá er augljóst að ekkert þeirra þakkar kraftaverkum eða meðfæddum yfirburðum Íslendinga fyrir árangurinn. Landsliðsmennirnir okkar í Frakklandi vita betur. Þeir hafa sjálfstraust án drambsemi og lifa til fulls eftir þeirri hugsjón að enginn er stærri en liðið. Þeir hafa skipulagt sig og æft sig til þess að ná árangri—og umfram allt hefur íslenskt íþróttalíf notið þess að Ísland er opið og frjálst land. Margir af stærstu áhrifavöldum íslenskrar íþróttasögu eru útlendingar sem hingað hafa komið og miðlað af þekkingu sinni og reynslu. Nægir þar að nefna Bogdan Kowalczyk í handboltanum, Alexander Ermolinskíj í körfuboltanum; og svo menn eins og George Kirby og auðvitað Lars Lagerbäck í fótboltanum. Og öruggt er að Ísland hefði ekki átt minnsta möguleika á því að komast á EM í Frakklandi ef íslenskir knattspyrnumenn væru átthagabundnir og hefðu ekki reynslu af því að spila gegn bestu leikmönnum veraldar.Áfram Ísland Það er gott að hafa það í huga í dag—á sjálfan 17. júní þegar við fögnum og þökkum fyrir Ísland og allt sem er íslenskt—að mesta gleðin og stoltið yfir því að vera Íslendingur á rætur sínar í því þegar við höfum sjálfstraust og hugrekki til þess að opna faðminn fyrir nýjum straumum og nýju fólki. Til hamingju með daginn og ÁFRAM ÍSLAND. Viltu birta grein á Vísi? Sendu okkur póst. Senda grein Birtist í Fréttablaðinu Þórlindur Kjartansson Mest lesið Valkyrjur: Ekki falla á prófinu! Gunnar Hólmsteinn Ársælsson Skoðun Hvammsvirkjun og meintur orkuskortur Ólafur Páll Jónsson Skoðun Upplýsingaóreiða og rannsóknir á mettaðri fitu Hópur lækna Skoðun 13,5 milljónir Sigurður Freyr Sigurðarson Skoðun Kóngar vímuefnaheimsins Lára G. Sigurðardóttir Skoðun Að vera léttvægur fundinn Guðmunda G. Guðmundsdóttir Skoðun Hvað með það þótt sérfræðingar að sunnan fari í verkfall? Silja Bára Ómarsdóttir Skoðun Halldór 18.01.2025 Halldór Er heimurinn á leið til helvítis? Árni Sigurðsson Skoðun Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ég veit ekki hvort ég var jafnsveittur og Gylfi eftir leikinn gegn Portúgal (þið munið—þennan sem við unnum 1–1)—en það munaði varla miklu því ég var gjörsamlega búinn á því, bæði líkamlega og andlega, þegar loksins var flautað til leiksloka. Mér leið eins og ég væri nýkominn úr IKEA-ferð með fjölskyldunni. Fyrirfram átti ég ekki endilega von á því að leikurinn næði slíkum heljartökum á mér. Stundin varð stærri en ég bjóst við og tilfinningarnar miklu sterkari. Ég var gagntekinn af þjóðerniskennd, stolti og metnaði. Og ég hlakka til þess að leyfa þessum ofsa að ná tökum á mér aftur á morgun í leiknum gegn Ungverjum. Blind ástríða er máttug tilfinning og í raun væri fáránlegt að horfa á leikina með einhverju öðru hugarfari. Fallegur fótbolti Hingað til höfum við Íslendingar nefnilega þurft að láta okkur nægja að velja okkur lið til þess að „halda með“ á stórmótum í knattspyrnu. Sumir velja að halda með löndum sem þeir hafa bundist einhverjum tilfinningaböndum vegna langrar eða skammrar dvalar í landinu; sumir hafa haldið með landi vegna þess að tilteknir leikmenn eru í sérlegu uppáhaldi eða búningarnir flottir og fjölmargir Íslendingar hafa fylgst spenntir með stórmótum án þess að halda með sérstöku liði—þeir halda bara með „góðum fótbolta“. En nú er öllum á Íslandi skítsama um „góðan fótbolta“. Það þarf ekki flókinn rökstuðning til þess að halda með sinni eigin þjóð. Tilfinningarnar ráða algjörlega. Fallegur fótbolti er sá fótbolti sem skilar okkur árangri. Ef við þurfum að pakka í vörn og láta skotin dynja á okkur og hreinsa svo frá í örvæntingu—þá er það fallegur fótbolti. Ef við náum upp léttleikandi spili alla leið frá eigin markteig og fram í sókn—þá er það líka fallegur fótbolti. Það mun enginn nenna að horfa á leiki Íslands með manni sem ætlar sér að gagnrýna nokkurn skapaðan hlut í leik liðsins, eða horfa á leikinn af einhverri sanngirni. Þjóðargersemin Gummi Ben orðaði þetta fullkomlega í lýsingu sinni frá St. Etienne: „Jú, hann var kannski aðeins rangstæður. En ekki svo rangstæður að það hefði þurft að dæma á það.“Tilfinningarnar ráða Þetta er málið. Þjóðin er sameinuð. Ef einhver Íslendingur dirfðist að segja að Ronaldo hafi hugsanlega haft eitthvað til síns máls, eða að þessi Pepe sé nú bara ágætur, eða að það hafi sennilega verið rétt hjá dómaranum að dæma aðra aukaspyrnu í leikslok (af því að gengur kannski ekki að leyfa mönnum að klára bara leikinn með því að verja með höndunum)—þá mun sá hinn sami þurfa að sætta sig við að horfa á næstu leiki aleinn. Hann getur þá talað af hlutleysi við veggina heima hjá sér. Við viljum ekki heyra það. Við viljum ekki rök. Við viljum ekki réttlæti. Við viljum ekki sanngirni. Við viljum sigur! Íþróttir eru vettvangur þar sem það er í góðu lagi að láta hinar frumstæðustu tilfinningar ráða algjörlega för. Þá slökkvum við á öllum æðri stöðvum heilans—og leyfum okkur að trúa fjölmörgum hlutum samtímis sem eru algjörlega órökréttir og stangast jafnvel á innbyrðis. Það er stór hluti af gleðinni og stemningunni að vera ekki að flækja hlutina neitt. En þessar sömu tilfinningar geta verið varhugaverðar þegar þær skjóta upp kollinum annars staðar. Í pólitík eru þær til að mynda stórhættulegar—eins og sést vel á framboði Donalds Trump í Bandaríkjunum. Hann byggir kosningabaráttu sína á hamslausri persónudýrkun og blindri ástríðu. Stuðningsmenn hans velja að trúa því sem hann segir jafnvel þótt þar stangist hver hluturinn á við annan; og flest líka við raunveruleikann. Þeir halda með sínum manni eins og við höldum með íslenska landsliðinu.Engin kraftaverk Og það þarf að passa sig á því að láta ekki ástríðuna yfir velgengni landsliðsins smitast út fyrir leikvanginn sjálfan. Við erum auðvitað rífandi stolt af okkar mönnum og njótum þeirrar alþjóðlegu athygli og aðdáunar sem árangur íslenska landsliðsins hefur vakið. Manni hlýnar um hjartarætur að sjá samstöðuna sem Færeyingar, Danir og Norðmenn hafa sýnt Íslendingum á þessu móti. Í þessu, eins og ýmsu öðru, má taka sér til fyrirmyndar íþróttafólkið sjálft. Hvort sem um er að ræða íslenska knattspyrnumenn eða konur, körfuboltafólkið okkar og handboltamennina—þá er augljóst að ekkert þeirra þakkar kraftaverkum eða meðfæddum yfirburðum Íslendinga fyrir árangurinn. Landsliðsmennirnir okkar í Frakklandi vita betur. Þeir hafa sjálfstraust án drambsemi og lifa til fulls eftir þeirri hugsjón að enginn er stærri en liðið. Þeir hafa skipulagt sig og æft sig til þess að ná árangri—og umfram allt hefur íslenskt íþróttalíf notið þess að Ísland er opið og frjálst land. Margir af stærstu áhrifavöldum íslenskrar íþróttasögu eru útlendingar sem hingað hafa komið og miðlað af þekkingu sinni og reynslu. Nægir þar að nefna Bogdan Kowalczyk í handboltanum, Alexander Ermolinskíj í körfuboltanum; og svo menn eins og George Kirby og auðvitað Lars Lagerbäck í fótboltanum. Og öruggt er að Ísland hefði ekki átt minnsta möguleika á því að komast á EM í Frakklandi ef íslenskir knattspyrnumenn væru átthagabundnir og hefðu ekki reynslu af því að spila gegn bestu leikmönnum veraldar.Áfram Ísland Það er gott að hafa það í huga í dag—á sjálfan 17. júní þegar við fögnum og þökkum fyrir Ísland og allt sem er íslenskt—að mesta gleðin og stoltið yfir því að vera Íslendingur á rætur sínar í því þegar við höfum sjálfstraust og hugrekki til þess að opna faðminn fyrir nýjum straumum og nýju fólki. Til hamingju með daginn og ÁFRAM ÍSLAND.
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun
Ísland verði Noregur á sterum: Sannleikurinn er lyginni líkastur- náttúruauðlindir fást gefins Björn Ólafsson Skoðun