Fótbolti

Kári: Ég er alveg 100 prósent

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kári Árnason á hóteli íslenska liðsins í Annecy.
Kári Árnason á hóteli íslenska liðsins í Annecy. Vísir/Vilhelm
Kári Árnason viðurkennir að honum hafi þótt slæmt að missa af leikjunum gegn Noregi og Liechtenstein í aðdraganda EM í Frakklandi en að hann hafi talið það best að taka engar áhættur.

Kári var með flensu í lok síðasta mánaðar en hann segir að hann hafi hvílt fyrst og fremst þar sem að hann var tæpur í nára.

„Það var best að taka enga sénsa. En ég er alveg 100 prósent núna,“ segir Kári í samtali við Vísi. „Æfingaleikir eru öðruvísi. Það er ekkert undir og menn eru að hugsa um að meiða sig ekki. En ég er núna í fínu standi og það er það sem mestu máli skiptir.“

Hann segist vera ánægður með hvernig hann nær að mæta til leiks í Frakklandi. „Ég byrjaði tímabilið í Svíþjóð ekki nógu vel en þetta er allt á réttri leið,“ segir hann enn fremur.

Kári mætti Cristiano Ronaldo þegar Malmö mætti Real Madrid í Meistaradeild Evrópu í vetur og fór það ekki nógu vel. Kári var fyrirliði þegar Malmö mætti Madrídingum á Spáni og fór sá leikur 8-0 fyrir spænska liðið. Ronaldo skoraði fjögur í þeim leik og lagði upp eitt.

„Portúgal er með gríðarlega sterkt lið en við höfum margoft sýnt að við getum unnið lið sem er hærra skrifað en okkar,“ segir Kári.

„Við mættum til dæmis Hollandi og okkur tókst vel upp gegn þeim. Við þurfum að leggja leikinn svipað upp.“

Það er von á því að Portúgal beiti hinum ýmsu vopnum í sínum sóknarleik en Kári segir að íslenska vörnin sé reiðbúin að taka við því.

„Við verðum tilbúnir í hvað sem þeir kasta að okkur. Stundum verður bara að spila þetta eftir eyranu - fótboltinn er þannig.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×