Fótbolti

Birkir: Munum ekki líma okkur á Ronaldo

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ísland mætir Portúgal í dag og segir Birkir Bjarnason, sem verður líklega í stóru hlutverki í íslenska liðinu í dag, að það sé margt líkt með þessum leik og þegar Ísland mætti Hollandi í undankeppni EM.

Ísland vann Hollendinga sem kunnugt er tvívegis og sá um leið til þess að Hollendingar sátu eftir með sárt ennið og komust ekki á EM í Frakklandi.

„Við vitum allir hvað Portúgal getur enda með gríðarlega sterkt lið. Við höfum áður spilað við sterk lið og ég reikna með að þetta verði svipað upp sett og gegn Hollandi. En það er klárt að við þurfum að eiga góðan leik til að fá eitthvað úr honum,“ sagði Birkir í samtali við Vísi.

Hann reiknar með því að hlutverk hans verði svipað og áður þó svo að Ísland sé nú að fara að mæta einum besta leikmanni heims í Cristiano Ronaldo.

„Ég hef áður verið í verkefni gegn Arjen Robben og eins og hann getur Ronaldo verið út um allt á vellinum,“ segir Birkir sem segir dagsverkið ekki að líma sig á Ronaldo.

„Þegar við stöðvuðum Robben gerðum við það sem lið og þannig þurfum við að stöðva Ronaldo. Maður sér það sjaldan í fótbolta að það sé verið að líma sig á ákveðna menn og við ætlum ekki í neitt svoleiðis.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×